Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon báru uppi leik Magdeburg í kvöld þegar liðið sótti eitt stig til Porto í áttundu umferð A-riðils Meistaradeildar Evrópu í handknattleik, 31:31. Gísli Þorgeir skoraði sex mörk og átti hvorki fleiri né færri en níu stoðsendingar. Varnarmenn Porto vissu hreinlega ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Þeir réðu ekkert við Hafnfirðinginn.
Ómar Ingi var markahæstur með sjö mörk og átti fjórar stoðsendingar. Magdeburgarmenn naga sig væntanlega í handarbökin yfir að hafa ekki hirt bæði stigin í Porto í kvöld því þeir voru með yfirhöndina lengst af. M.a. var fjögurra marka munur í hálfleik, 18:14, Magdeburg í hag. Víctor Iturriza jafnaði metin fyrir Portoliðið þegar skammt var til leiksloka. Hann var jafnframt markahæstur hjá Porto með sjö mörk. Pedro Valdés var næstur með fjögur mörk.
Porto krækti þar með í sitt fyrsta stig í Meistaradeildinni í vetur. Það nægði liðinu samt ekki til að lyfta sér upp úr botnsætinu.
Magdeburg er í þriðja sæti A-riðils með 10 stig. PSG er efst með 14 stig og Veszprém er einu stigi á eftir. Dinamo Búkarest situr í fjórða sæti með 9 stig eftir útisigur á Wisla Plock í kvöld, 28:26.