Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur skrifað undir nýjan samning við SC Magdeburg sem gildir fram á mitt árið 2025. Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins í gær. Gísli Þorgeir hefur verið í herbúðum SC Magdeburg síðan í janúar 2020.
SC Magdeburg er efst í þýsku 1. deildinni um þessar mundir með 26 stig að loknum 13 leikjum. Liðið varð heimsmeistari félagsliða í haust og vann Evrópudeildina á síðasta vori. Magdeburg er ennfremur taplaust í Evrópudeildinni það sem af er leiktíðar.
Á heimasíðu Magdeburg er haft eftir Gísla Þorgeiri að hann hafi ríka löngun leggja sitt lóð á vogarskálin við að skrifa nýjan kafla í sögu félagsins. Hann sé um leið þakklátur fyrir að það traust sem félagið sýni sér með nýjum og lengri samningi.
Gísli Þorgeir hefur tvisvar orðið fyrir alvarlegum meiðslum frá því að hann gekk til liðs við Magdeburg. Forráðamenn félagsins hafa staðið þétt við bakið á Hafnfirðingnum í gegn erfiðleikana og er svo komið að hann er orðinn afar mikilvægur hlekkur í afar sterku liði. Gísli Þorgeir er 22 ára gamall.
Til viðbótar hefur Marko Bezjak framlengt samning sinn við Magdeburg til 2023 og Daninn Michael Damgaard til 2024.