- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gísli Þorgeir skaut Magdeburg til Kölnar

Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar fagna sigrinum sæta í Ungverjalandi í kvöld. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Gísli Þorgeir Kristjánsson var hetja SC Magdeburg í dag þegar hann tryggði liðinu sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Gísli Þorgeir skaut Magdeburg í undanúrslit þegar hann skoraði sigurmark liðsins, 28:27, tveimur sekúndum fyrir leikslok í Veszprém í Ungverjalandi. Jafntefli var í fyrri viðureigninni í Magdeburg fyrir viku 26:26.


Stórlið Veszprém er þar með úr leik. Enn eitt árið rætist ekki draumur stjórnenda félagsins um að vinna Meistaradeild Evrópu. Þetta var aðeins annað tap Veszprém í keppninni í vetur en þriðja árið í röð sem liðið fellur úr leik í átta liða úrslitum.

Leikmenn SC Magdeburg skiljanlega kampakátir með sæti í undanúrslitum Meistaradeildar í Köln eftir sigurinn í Veszprém. Ljósmynd/EPA

Magdeburg verður þar með eitt fjögurra þátttökuliða í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í Köln 14. og 15. júní, þriðja árið í röð en Magdeburg vann Meistaradeild Evrópu 2023. Gísli Þorgeir átti stóran þátt í titlinum.


Magdeburg hefur sannarlega gengið í gegnum hæðir og lægðir í Meistaradeildinni í vetur og leit jafnvel út fyrir að liðið næði ekki inn í útsláttarkeppninar. Meiðsli hafa herjað á lykilmenn um lengri eða skemmri tíma.


Gísli Þorgeir skoraði fimm af mörkum Magdeburg í leiknum í dag. Ómar Ingi Magnússon skoraði þrjú mörk. Felix Claar var markahæstur með sjö mörk.

Veszprém var fjórum mörkum yfir, 26:22, þegar 10 mínútur voru til leiksloka. Magdeburg svaraði með ótrúlegum kafla og skoraði fimm mörk í röð og komst marki yfir, 27:26.

Sergey Hernandez, markvörður Magdeburg, varði langskot þegar 25 sekúndur var eftir. Magdeburg hóf sókn sem lauk með sigurmarki Gísla Þorgeirs.

Ómar Ingi Magnússon sækir að vörn Veszprém. Ljósmynd/EPA

Bjarki Már Elísson skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum fyrir Veszprém. Aron Pálmarsson skoraði ekki mark í leiknum. Honum var tvisvar vikið af leikvelli.

Ludovic Fabregas skoraði sjö mörk og var atkvæðamestur leikmanna Veszprém við markaskorun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -