Gísli Þorgeir Kristjánsson var hetja SC Magdeburg í dag þegar hann tryggði liðinu sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Gísli Þorgeir skaut Magdeburg í undanúrslit þegar hann skoraði sigurmark liðsins, 28:27, tveimur sekúndum fyrir leikslok í Veszprém í Ungverjalandi. Jafntefli var í fyrri viðureigninni í Magdeburg fyrir viku 26:26.
Stórlið Veszprém er þar með úr leik. Enn eitt árið rætist ekki draumur stjórnenda félagsins um að vinna Meistaradeild Evrópu. Þetta var aðeins annað tap Veszprém í keppninni í vetur en þriðja árið í röð sem liðið fellur úr leik í átta liða úrslitum.

Magdeburg verður þar með eitt fjögurra þátttökuliða í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í Köln 14. og 15. júní, þriðja árið í röð en Magdeburg vann Meistaradeild Evrópu 2023. Gísli Þorgeir átti stóran þátt í titlinum.
Magdeburg hefur sannarlega gengið í gegnum hæðir og lægðir í Meistaradeildinni í vetur og leit jafnvel út fyrir að liðið næði ekki inn í útsláttarkeppninar. Meiðsli hafa herjað á lykilmenn um lengri eða skemmri tíma.
Gísli Þorgeir skoraði fimm af mörkum Magdeburg í leiknum í dag. Ómar Ingi Magnússon skoraði þrjú mörk. Felix Claar var markahæstur með sjö mörk.
Veszprém var fjórum mörkum yfir, 26:22, þegar 10 mínútur voru til leiksloka. Magdeburg svaraði með ótrúlegum kafla og skoraði fimm mörk í röð og komst marki yfir, 27:26.
Sergey Hernandez, markvörður Magdeburg, varði langskot þegar 25 sekúndur var eftir. Magdeburg hóf sókn sem lauk með sigurmarki Gísla Þorgeirs.

Bjarki Már Elísson skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum fyrir Veszprém. Aron Pálmarsson skoraði ekki mark í leiknum. Honum var tvisvar vikið af leikvelli.
Ludovic Fabregas skoraði sjö mörk og var atkvæðamestur leikmanna Veszprém við markaskorun.