- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gjekstad tekur við af Þóri um áramótin

Ole Gustav Gjekstad verðandi landsliðsþjálfari Noregs í handknattleik kvenna mætir á blaðamannfundinn í morgun þar sem greint var frá ráðningu hans. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Norðmaðurinn Ole Gustav Gjekstad hefur verið ráðinn eftirmaður Þóris Hergeirssonar sem landsliðsþjálfari Noregs í handknattleik kvenna. Norska handknattleikssambandið tilkynnti í morgun um ráðningu Gjekstad til fjögurra ára á blaðamannfundi sem hófst klukkan hálf átta að íslenskum tíma. Fram kom á blaðamannfundinum að Gjekstad hafi verið efstur á óskalista stjórnenda norska handknattleikssambandsins og sá sem þeir sneru sér fyrst til þegar ljóst varð að Þórir væri harðákveðinn í að láta af störfum í árslok.

Gjekstad, sem er 56 ára gamall, tekur við starfinu um áramótin þegar núverandi samningur Þóris við norska handknattleikssambandið rennur úr. Þórir sagði frá því fyrir um mánuði að hann ætlaði ekki að halda áfram störfum þegar núverandi samningur rynni sitt skeið á enda. Þórir hefur verið landsliðsþjálfari í 15 ár og starfað fyrir landsliðið í nærri þrjá áratugi þar af sem aðstoðarþjálfari landsliðsins í átta ár áður en hann tók við af Marit Breivik í ársbyrjun 2009. Þar áður vann Þórir við leikgreiningar fyrir landsliðið frá 1994.

Ole Gustav Gjekstad fyrir miðri mynd tekur í hönd Kare Geir Lio formanns norska handknattleikssambandsins. Til hægri er Erik Langerud framkvæmdastjóri sambandsins. Ljósmynd/EPA

Lýkur tímabilinu í Danmörku

Gjekstad heldur áfram þjálfun danska úrvalsdeildarliðsins Odense Håndbold út þetta keppnistímabil og verður þar af leiðandi í tveimur störfum fram í júní á næsta ári. Það er þvert á stefnu norska handknattleikssambandsins að landsliðsþjálfari sinni öðru starfi en til þess að fá Gjekstad var gerð undantekning að þessu sinni.

Sigursæll þjálfari

Gjekstad gjörþekkir norskan og evrópskan kvennahandknattleik. Hann hefur að örfáum árum undanskildum þjálfað fremstu kvennalið Noregs, Larvik og Vipers Kristiansand frá aldamótum. Lið hans hafa 13 sinnum orðið norskir meistarar og þrjú ár í röð stýrði hann Vipers Kristiansand til sigurs í Meistaradeild Evrópu, 2021, 2022 og 2023. Hann lét af störfum hjá félaginu sumarið 2023 og réðist til Óðinsvéa í Danmörku.

Auk glæsilegs þjálfaraferils lék Gjekstad handknattleik á sínum yngri árum og tók m.a. þátt í 149 landsleikjum á árunum 1986 til 1995 þar sem hann skoraði í 548 mörk.

Norska landsliðið er Evrópu- og Ólympíumeistari í handknattleik kvenna og silfurlið frá HM á síðasta.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -