- Auglýsing -
- Auglýsing -

Glaðbeittir Framarar fóru heim með bæði stigin

Sebastian Alexandersson, þjálfaði Fram á síðasta tímabili. Hann er þjálfari HK. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson.
- Auglýsing -

Þeir voru glaðir í bragði Framarar þegar þeir gengu af leikvelli í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld og máttu og áttu líka að vera það eftir fimm marka sigur, 29:24, á Aftureldingu í Olísdeild karla í handknattleik. Framarar voru talsvert sterkari í síðari hálfleik og áttu meira eftir á tanknum, eins og sagt, er þegar kom fram á lokakaflann. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 15:15.


Með sigrinum lyfti Fram sér upp í sjötta til sjöunda sæti deildarinnar, alltént að sinni, með 14 stig en viðureigninin í kvöld var upphafsleikur 13. umferðar. Afturelding er enn í fimmta sæti með 15 stig.


Afturelding byrjaði leikinn afar vel og var með fjögurra marka forskot, 7:3, eftir aðeins tíu mínútur. Eftir það jafnaðist leikurinn. Fram kom betri skikki á varnarleik sinn. Þrándur Gíslason Roth sá um að staðan var jöfn, 12:12, þegar hann jafnaði metin fyrir Aftureldingu á síðustu sekúndum áður en gengið var til búningsherbergja til skrafs og ráðagerða.


Lið Fram tók frumkvæðið í byrjun síðari hálfleiks. Afturelding var lengst af skrefi á eftir. Herslumun vantaði þegar tök var á að jafna metin eða að minnka muninn í eitt mark. Síðasti möguleikinn gafst í stöðunni 23:21 fyrir Aftureldingu til að minnka í eitt mark. Þegar sá möguleiki gekk liðinu úr greipum skoruðu Framarar tvö mörk í röð og gáfu ekki þumlung eftir á síðustu mínútunum.


Miklu máli skipti fyrir Fram að Lárus Helgi Ólafsson náði sér vel á strik í markinu þótt sannarlega hafi leikur hans ekki verið jafn stórbrotinn og gegn KA. Vörn Framara var traust fyrir utan upphafsmínúturnar.


Aftureldingarliðið gaf eftir þegar á leið og þreyta kom í menn. Ekki bætti úr skák að Bergvin Þór Gíslason fékk högg á lærið fyrir miðjan síðari hálfleik og kom ekkert meira við sögu. Arnór Freyr Stefánsson markvörður var fjarri góðu gamni annan leikinn í röð vegna meiðsla. Unglingalandsliðsmarkvörðurinn Brynjar Vignir Sigurjónsson gerði hvað hann gat og sýndi að mikið býr í pilti.


Mörk Aftureldingar: Blær Hinriksson 7/4, Guðmundur Árni Ólafsson 6, Þrándur Gíslason Roth 3, Þorsteinn Leó Gunnarsson 2, Einar Ingi Hrafnsson 2, Bergvin Þór Gíslason 1, Gunnar Kristinn Malmquist Þórsson 1, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 1, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 7/1, 19,4%.
Mörk Fram: Vilhelm Poulsen 6, Stefán Darri Þórsson 5, Andri Már Rúnarsson 4, Þorgrímur Smári Ólafsson 3, Breki Dagsson 3, Arnar Snær Magnússon 2, Matthías Daðason 2/2, Rógvi Christiansen 1, Kristófer Dagur Sigurðsson 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 15, 38,5%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -