- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gleðilegt nýtt ár – Dropinn holar steininn

Mynd/Elio
- Auglýsing -

Handbolti.is óskar lesendum sínum farsæls nýs árs og þakkar kærlega fyrir samveruna árinu 2022. Einnig þökkum við innilega þeim sem studdu við bakið á útgáfunni á árinu með kaupum á auglýsingum eða með styrkjum. Án lesenda, auglýsenda og stuðnings almennings væri handbolti.is ekki til.


Handbolti.is hefur vaxið fiskur um hrygg meðal lesenda frá fyrsta útgáfudegi 3. september 2020. Þá geysaði heimsfaraldur og útlitið virtist ekki ýkja bjart. Engu að síður var í skaparans nafni ýtt út opnu skipi er leyst var festi. „Með Andrarímur í andans nesti, en annars harðfisk og blöndukút, en munaðaraukinn eini og besti, ögn af sykri í vasaklút,“ eins Jakob Thorarensen skáld og afabróðir minn, orti snemma á síðustu öld.

Lesendum fjölgar

Heimsóknir á nýliðnu ári voru vel á aðra milljón og fjölgaði um 41% frá árinu 2021 og flettingar voru 48% fleiri en árið á undan. Tölurnar eru ekki háar í samanburði við risana á íslenskum fjölmiðlamarkaði, eins og útgefendum hefur oft verið bent á. Engu að síður erum við stolt og ánægð með árangurinn.

Ekki dagur án frétta

Ríflega 4.000 fréttir voru birtar á árinu 2022. Engin dagur ársins var án frétta á handbolta.is. Handbolti.is hefur birt fréttir dag hvern frá upphafi sama hvernig árað hefur hjá eina starfsmanninum. Fyrir vikið eru nærri 8.800 greinar í safninu sem hafa orðið til á þeim 850 dögum síðan handbolti.is fór í loftið. Þetta hefur kostað einhverja vinnu. Til að auka hana var sala auglýsinga á ný færð yfir til ritstjórnar síðla ársins.

Margir hafa lagst á árar

Ekki hefur þessi vinna öll lagst á einn mann þótt ekki hafi tekist að launa öðrum á nokkurn hátt. Auk sambýliskonu minnar og helstu stoðar og styttu frá byrjun, Kristínar B. Reynisdóttur, er Sigmundi Ó. Steinarssyni, Hafliða Breiðfjörð (fotbolti.net), Agli Bjarna Friðjónssyni, Eyjólfi Garðarssyni, Jóhannesi Long, Skapta Hallgrímssyni (Akureyri.net), og Jóhannesi Lange hér með sérstaklega þökkuð ómetanleg aðstoð. Fleiri hafa lagst á árar.

Synjun – of fáir starfsmenn!

Á árinu var sótt um styrk úr potti ríkisins til stuðnings einkarekinni fjölmiðla. Synjun barst við umsókninni á þeim forsendum að of fáir launaðir launaðir starfsmenn hafi verið á launaskrá árið 2021. Önnur skilyrði uppfyllti handbolti.is. Aðeins eitt stöðugildi var og er enn við handbolta.is. Burt séð frá synjuninni þá var umsóknarferlið lærdómsríkt. Sá lærir sem lifir. Aldrei er að vita nema að slagur verður látinn standa á ný á ári þótt fastráðnum launuðum starfsmönnum hafi ekki fjölgað.

HM er á næstu grösum

Framundan er gott ár í íslenskum handknattleik með mótum og kappleikjum félagsliða og landsliða, jafnt þeirra yngri sem eldri, og fjölda óskrifaðra frétta. Á næstu dögum hefst heimsmeistaramótið í handknattleik karla í Svíþjóð og Póllandi. Íslenska landsliðið verður á meðal þáttakenda.

Ekki á vísan róið

Talsverðar bjartsýni ríkir um góðan árangur. Innistæða er fyrir þeirri bjartsýni enda flestar forsendur hliðhollar leikmönnum og liðinu. Verra væri ef svartsýni og neikvæðni ríkti og framfarir hefðu aðeins átt sér stað meðal andstæðinganna. Hinsvegar er ljóst að í grunninn er um að ræða leiki. Af fenginni reynslu af kappleikjum er ekki á vísan róið fremur en áður. Brugðið getur til beggja vona.

Að vandlega yfirlögðu ráði

Útgefandi handbolta.is tók ákvörðun, að vandalega yfirlögðu ráði í lok nóvember, rétt áður en umsóknarfrestur um aðgang blaðamanna og ljósmyndara að HM rann út, að senda ekki mann eða menn út á heimsmeistaramótið. Ákvörðunin, sem fór þversum ofan í einhverja, var ekki tekin af léttúð eða vegna þess að vantrú ríkti um árangur íslenska liðsins.

Fjárhagslegt hættuspil

Því miður drógust tekjur útgáfunnar saman á árinu 2022 frá árinu á undan. Ekkert borð er fyrir báru. Ljóst var, hvernig sem dæmið var reiknað, með eða án aðstoðar Excel, að það væri fjárhagslegt hættuspil að senda mann eða menn út á HM með liðinu að þessu sinni. Ekki væri hyggilegt að vera úti, kannski í nærri þrjár vikur, og treysta á guð og lukkuna um að fjárhagslegir endar næðust saman.

Víða er hart í ári

Undirtektir við sölu auglýsinga síðustu vikur hafa ekki orðið til að eftirsjá ríki vegna þessarar ákvörðunar. Sem dæmi má nefna að eitt af öflugri útgerðarfélögum landsins hafnaði á milli jóla og nýárs beiðni frá handbolta.is um 15.000 kr. stuðning.

Landsliðinu fylgja góðar kveðjur

Handbolti.is fylgist með framvindu íslenska landsliðinu á HM úr fjarska að þessu sinni með von um að betur ári í útgáfunni þegar fram líða stundir. Landsliðinu fylgja góðar kveðjur með von um að það blómstri í keppninni og uppfylli eigin vonir og þjóðarinnar.

Óhikað haldið áfram

Handbolti.is heldur sínu striki á árinu þrátt fyrir að ekki verði farið á HM að þessu sinni. Hér eftir sem hingað til verður fylgst með handknattleiksfólki okkar innanlands og utan, eldri jafnt sem yngri. Áfram verður haldið á þeirri braut sem mörkuð hefur verið með von um að jafnt og þétt og styrkist útgáfan svo mögulegt verði að auka fjölbreytni þess efnis sem boðið verður upp á. Dropinn holar steininn.


Kæru lesendur, gleðilegt handknattleiksár 2023!


Ívar Benediktsson, [email protected].

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -