- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gleymdi mér aðeins í gleðinni

Birna Berg Haraldsdóttir leikmaður ÍBV. Mynd/Facebooksíða ÍBV
- Auglýsing -

„Ég fór kannski aðeins fram úr mér. Það gerast þegar maður gleymir sér aðeins í gleðinni,“ sagði Birna Berg Haraldsdóttir handknattleikskona hjá ÍBV þegar handbolti.is heyrði henni í morgun eftir að babb kom í bátinn hjá henni við endurhæfingu.

Örvefur var sökudólgurinn

Birna Berg sleit krossband í september og virtist vera á beinu brautinni til baka snemma í vor þegar hún fór skyndilega að finna fyrir verkjum í hnénu. Eftir skoðun var ákveðið að gera litla aðgerð á dögunum. Fjarlægður var örvefur í hnénu sem talinn er vera sökudólgurinn sem valdið hefur verkjunum.

Virtist vera á beinu brautinni

„Útlitið var gott og þegar fimm mánuðir voru liðnir frá aðgerð gekk allt mjög vel. Ég var komin inná parketið og í rauninni eina skrefið sem ég átti eftir var að fara í kontakt. Ég hélt áfram að styrkja mig, hlaupa meira og hoppa hærra.
Í lok mars byrjaði ég að finna fyrir miklum verkjum í hnénu. Ég var hinsvegar svo þrjósk og reyndi að halda áfram að þjösnast á þessu sem varð svo til þess að ég gat ekki hlaupið lengur eða gert æfingarnar mínar án þess að verða draghölt á eftir. Svo leið tíminn og þetta lagaðist aldrei og varð bara verra og verra,“ sagði Birna Berg sem eins og áður sagði fór í aðgerð.

Finnur strax mun

„Ég finn strax mikinn mun á mér. Ég get að minnsta kosti gengið upp og niður stiga án þess að vera með stingandi verk,“ sagði Birna Berg sem er þekkt keppnismanneskja og hefur auk þess tvisvar áður slitið krossband í hné.

Línan er þunn

„Það er oft of auðvelt að fara fram úr sér og mér finnst línan vera svo þunn á milli þess að gera nóg og gera of mikið. Þetta var ágæt áminning um að flýta sér hægt.

Þó að markmiðið sé áfram að vera klár í fyrsta leik á næsta tímabili verð ég líka aðeins að hugsa til lengri tíma ef ég ætla að spila handbolta í eins mörg ár og ég vil,“ sagði Birna Berg Haraldsdóttir, handknattleikskona hjá ÍBV og þrautreynd landsliðskona í samtali við handbolta.is í morgun.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -