„Ég er ótrúlega glöð að vera mætt aftur til leiks og spennt fyrir að takast á við stórmót á nýjan leik,“ segir Sandra Erlingsdóttir fyrirliði landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is í Porsche Arena í Stuttgart.
Sandra blómstraði með landsliðinu á HM fyrir tveimur árum og varð markahæsti leikmaður landsliðsins á heimsmeistaramótum með 34 mörk. Hún missti af EM fyrir ári, eftir að hafa eignast barn um sumarið.
Uppselt á leikinn
Sandra leiðir íslenska liðið til leiks í Porsche Arena á morgun sem fyrirliði. Uppselt er á leikinn og verða um 6.000 áhorfendur og væntanlega rífandi góð stemning. Sandra hlakkar til leiks.
„Ég vona að við getum allar notið þess að taka þátt í þessum stóra leik. Ég veit líka að leikmenn þýska landsliðsins eru stressaðir fyrir leiknum, mæta hingað og standa undir pressunni,“ segir Sandra sem þekkir vel til stemningarinnar eftir að hafa leikið í úrslitum bikarkeppninnar vorið 2023 og verið síðan á meðal áhorfenda þegar þáverandi lið hennar TuS Metzingen varð bikarmeistari.
Sakna stemningarinnar
„Stemningin á handboltaleikjum er eitt af því sem ég sakna frá því að ég lék í Þýskalandi. Þeir mæta vel á leiki og kunna að búa til stemningu auk þess að vera mjög miklir stuðningsmenn,“ segir Sandra sem lék í tvö ár með TuS Metzingen.
„Það er mikill heiður að fá tækifæri til þess að vera fyrirliði,“ segir Sandra sem hefur í mörg horn að líta enda hefur orðið mikil endurnýjun á landsliðshópnum á undanförnum einum til tveimur árum.
Lengra viðtal við Söndru er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Fleira efni:
HM kvenna ”25 – dagskrá, riðlakeppni
Landslið Íslands á HM kvenna 2025
A-landslið kvenna – fréttasíða.



