- Auglýsing -
- Auglýsing -

Glundroði ríkir hjá Tékkum

Jan Filip og Daniel Kubes stýra ekki landslið Tékklands í bráð. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Glundroði ríkir innan tékkneska handknattleikssambandsins í kjölfar þess að undirbúningur karlalandsliðsins fyrir HM endaði með ósköpum og þátttaka karlalandsliðsins rann út í sandinn rétt áður en landsliðið átti að leggja af stað til Egyptalands. Þá voru aðeins fjórir leikmenn eftir heilir heilsu. Aðrir í leikmannahópi landsliðsins voru í einangrun auk þjálfaranna sem voru þó að rétta úr kútnum eftir að hafa veikst strax í upphafi ársins.


Það er bókstaflega allt á suðupunkti í herbúðum sambandsins.
Landsliðsþjálfararnir, Jan Filip og Daniel Kubes hafa verið reknir og í framhaldinu sagði stjórn handknattleikssambandsins af sér á einu bretti. Ekki liggur fyrir hverjir taka við stjórn sambandsins en víst er að mikil uppstokkun er framundan utan vallar sem innan eftir þann álitshnekki sem tékkneskur handknattleikur þykir hafa orðið fyrir.


Uppnámið varð í kjölfar rannsóknar sem þykir leiða í ljós afglöp í undirbúningi landsliðsins sem hófst 27. desember, eftir því sem tékkneskir fjölmiðlar greina frá. Ekki kemur nánar fram í hverju þessi afglöp felast. Talið er fullvíst að þau tengist m.a. viðbúnaði innan sambandsins og landsliðsins við smitunum. Þau munu hafa öll verið í skötulíki frá fyrsta degi sem varð þess valdandi að á þriðja tug manna smitaðist.
 
Fráfarandi stjórn sendir aðeins frá sér yfirlýsingu um að hún hafi sagt af sér um leið og þjálfurunum hafði verið gert að axla sín skinn. Fráfarandi formaður neitar að tjá sig að sinni um málið eins og sakir standa.

Áður en tékkneska landsliðið dró sig úr keppni á HM á elleftu stundu hafði það verið gert afturreka frá Færeyjum 5. janúar vegna átta kórónuveirusmita sem greindust við landamæraskimun við komuna til Vága-flugvallar. Tékkneska landsliðið átti að leika við færeyska landsliðið í tvígang í byrjun árs í undankeppni EM en báðum leikjum varð að slá á frest fram á vor.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -