„Okkar markmið er alveg klárt, beint aftur upp í Olísdeildina og ekkert annað,“ segir Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari kvennaliðs Aftureldingar sem leikur í Grill 66-deild kvenna á keppnistímabilinu. Afturelding féll úr Olísdeildinni í vor eftir eins árs dvöl. Fallið varð þó ekki til þess að fólki féllust hendur í Mosfellsbæ. Þvert á móti, segir Guðmundur Helgi sem tók við Aftureldingarliðinu snemma á þessu ári.
Guðmundur Helgi fékk lítinn tíma í í upphafi ársins til þess að snúa gæfunni með Aftureldingu vegna þess hversu snubbóttan enda Íslandsmótið fékk. Nú hefur verið unnið vel, að sögn Guðmundar og allir klárir í slaginn, jafnt utan vallar sem innan.
„Við erum með mjög skemmtilega blöndu af leikmönnum sem eru til í að leggja mikið á sig til að vera á meðal þeirra bestu. Stemmningin er frábær í hópnum og tilhlökkun mikil að byrja þetta tímabil. Það er frábær umgjörð í kringum liðið og fullt af góðu fólki sem er til í slaginn með okkur. Það er góður andi í Mosó,“ segir Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari kvennaliðs Aftureldingar.
Níu lið verða í Grill 66-deild kvenna á keppnistímabilinu. Fyrir vikið þá situr eitt þeirra yfir í hverri umferð. Kemur það í hlut Aftureldingar að leika ekki í upphafsumferðinni sem hefst í kvöld með viðureign ÍR U og Fjölnis/Fylkis í Austurbergi klukkan 19.30.
Fyrsti leikur Aftureldingar verður eftir viku þegar liðið sækir Gróttu heim í Hertzhöllina á Seltjarnarnesi. Flautað verður til leiks klukkan 18.30. Um toppslag verður að ræða þar sem reiknað er með að þau muni í vetur bítast um sæti í Olísdeildinni á næstu leiktíð.
Leikmannahópur Aftureldingar í Grill 66-deild kvenna verður skipaður eftirtöldum leikmönnum:
Anamaria Gugic – Skytta
Andrea Ósk Þorkelsdóttir – Lína
Ásdís Birta Alexandersdóttir – Horn
Birna Lára Guðmundsdóttir – Horn
Brynja Rögn Ragnarsdóttir – Lína
Drífa Garðarsdóttir – Horn
Eva Dís Sigurðardóttir – Mark
Katrín Helga Davíðsdóttir – Miðja
Kristín Arndís Ólafsdóttir – Miðja
Margrét Ýr Björnsdóttir – Mark
Ragnhildur Hjartardóttir – Horn
Sara Kristjánsdóttir – Allt
Susan Ines Gamboa – Skytta/miðja
Telma Rut Frímannsdóttir – Skytta
Úlfhildur Tinna Lárusdóttir – Skytta/miðja
Þórhildur Vala Kjartansdóttir – Lína