Andrea Jakobsen og samherjar hennar í Kristianstad unnu í kvöld VästeråsIrsta HF, 24:21, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Nú hefur þráðurinn verið tekinn upp af krafti í deildinni að loknu hléi vegna heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik.
Andrea skoraði þrjú mörk í átta skotum og átti auk þess fjórar stoðsendingar fyrir Kristianstad-liðið. Hún lét einnig til sín taka í vörninni og var einu sinni vísað af leikvelli.
Andrea og félagar voru með tögl og hagldir í leiknum frá upphafi til enda. Forskot þeirra var fjögur mörk að loknum fyrr hálfleik, 14:10.
Kristianstad er í níunda sæti úrvalsdeildarinnar með átta stig eftir átta leiki. Skuru er efst með 16 stig en hefur leikið níu sinnum. Sävehof situr í öðru sæti með 14 stig en hefur lokið átta leikjum.
Lugi, liðið sem Ásdís Þóra Ágústsdóttir, er á samningi hjá er í sjöunda sæti með níu stig. Ásdís Þóra er á góðum batavegi eftir að hafa slitið krossband í vor.