- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

„Gott að fara strax inn í nýjan leik“

- Auglýsing -

„Það er gott að fara strax inn í nýjan leik og geta bætt upp fyrir það sem miður gekk gegn Svartfellingum,“ segir Lovísa Thompson landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is.

Lovísa verður í eldlínunni í kvöld þegar íslenska landsliðið mætir spænska landsliðinu í annarri umferð milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins. Lovísa segir stórt tap fyrir Svartfellingum í fyrrakvöld hafa verið högg fyrir liðið. Margt hafi hins vegar verið gert síðan og m.a. farið afar vel yfir það sem vantaði upp á í leik íslenska liðsins í fyrrakvöld svo frammistaða gegn Spáni verði betri.

Verður að byrja af meiri krafti

„Í sóknarleiknum verðum við að vinna betur fyrir næsta mann og losa boltann betur. Flæðið verður að vera betra. Einnig er nauðsynlegt að hefja leikinn af meiri krafti í vörninni. Markmiðið er alltaf að byrja af krafti en því miður þá reyndumst við vera „alltof soft“ frá upphafi gegn Svartfellingum,“ segir Lovísa sem þrátt fyrir að vera á sínu fyrsta heimsmeistaramóti hefur orðið ágæta reynslu af evrópskum handknattleik eftir þátttöku sína með Val í Evrópumótum félagsliða síðustu árin.

Snýst um að bæta okkar leik

Hvort spænska liðið henti íslenska liðinu betur sem mótherji sagði Lovísa ekki vera viss um.

„Fyrst og fremst snýst þetta um að bæta okkar leik frá því sem við sýndum gegn Svartfellingum. Stemningin, gleðin og baráttan sem við viljum standa fyrir verður að vera fyrir hendi. Upp á hana skorti gegn Svartfellingum sem gerði að verkum að allt annað varð svo erfitt.

Við verðum fyrst og fremst að leika betur gegn Spáni en við gerðum í fyrrakvöld til þess að eiga möguleika. Ég vona það svo innilega. Við höfum sýnt það fram til þessa,“ segir Lovísa Thompson landsliðskona.

Viðureign Íslands og Spánar hefst klukkan 19.30 í kvöld.

HM kvenna ”25 – dagskrá, milliriðlar, úrslit, staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -