Grænlenska handknattleikssambandið hefur sett stefnuna á að kvennalandsliðið verði með á heimsmeistaramótinu 2027 sem fram fer í Ungverjalandi. Jakob Rosbach Larsen hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari og á að stýra landsliðinu inn á stórmótið. Grænlendingar voru á meðal þátttökuþjóða á HM 2023 en samdráttur í rekstri handknattleikssambandsins varð þess valdandi að ekkert varð út úr þátttöku í undankeppni fyrir HM sem fram fór á síðasta ári.
Larsen er gjörkunnugur handknattleik á Grænlandi. Hann lék 87 landsleiki fyrir karlalandslið Grænlands frá 1997 til 2010 auk þess að leika með félagsliðum í Danmörku, Frakklandi og á Spáni. Larsen er 51 árs gamall og er í dag þjálfari danska kvennaliðsins Horsens Håndbold Elite. Áður en Larsen tók við þjálfun Horsens var hann m.a. þjálfari Nykøbing Falster Håndboldklub í átta ár.
Larsen verður þjálfari hjá Horsens samhliða starfi sínu fyrir grænlenska handknattleikssambandið.




