- Auglýsing -
- Auglýsing -

Grannþjóðirnar mætast í úrslitum Evrópumótsins

Portúgalska landsliðið er það eina á EM sem ekki hefur tapað leik til þessa. Það mætir spænska landsliðinu í úrslitaleik á morgun. Ljósmynd/EHF
- Auglýsing -

Grannþjóðirnar Spánn og Portúgal mætast í úrslitaleik Evrópumóts 20 ára landsliða karla í handknattleik á morgun. Spánverjar lögðu Dani eftir mikinn endasprett í undanúrslitum í gærkvöld, 36:34. Portúgal lagði Þýskaland, 29:24. Var þetta annar sigur portúgalska landsliðsins á því þýska á mótinu en liðin voru einnig saman í riðli á fyrsta stigi mótsins. Um leið er Portúgal með eina taplausa liðið í mótinu, sex sigurleiki og eitt jafntefli við Íslendinga. Portúgal vann Spán, 39:38, í riðlakeppni átta liða úrslita í vikunni.

Danir voru yfir fyrstu 53 mínútur leiksins við Spánverja í gær og virtust ætla að hafa sigur. Spænska liðið náði hinsvegar afar góðum lokaklafla. Liðið skoraði 10 mörk gegn fjórum á síðasta stundarfjórðungnum og komst í fyrsta sinn yfir, 32:31. Miklu munaði að Alvaro Pérez skellti nánast í lás í markinu eftir að hafa verið daufur framan af. Hann varði sjö skot á síðustu 15 mínútunum.

Hlynur Leifsson var annar eftirlitsmaður leiksins og sést á myndskeiðinu hér fyrir ofan róa þjálfara danska landsliðsins sem virtist mikið niðri fyrir í leikslok.

Kætin var allsráðandi hjá Spánverjum eftir að þeir lögðu Dani í undanúrslitum í gær. Ljósmynd/EHF

Getað jafnað við Dani

Spánverjar hafa unnið EM í þessum aldursflokki þrisvar í röð og vinni þeir úrslitaleikinn á morgun jafna þeir metin við Dani sem hafa fjórum sinnum orðið Evrópumeistarar í þessum aldursflokki, oftast allra.

Góður kafli dugði ekki

Lengi leit út fyrir að Portúgal ynni öruggan sigur á Þjóðverjum í hinum undanúrslitaleiknum í gær. Portúgalska liðið var átta mörkum yfir, 21:13, snemma í síðari hálfleik þegar hamur rann á leikmenn þýska landsliðsins. Þeir skoruðu 11 mörk gegn fjórum og minnkuðu muninn í eitt mark, 25:24. Þá sögðu Portúgalar, hingað og ekki lengra og skoruðu fjögur síðustu mörkin.

Þjóðverjar leika þar með ekki öðru sinni í röð til úrslita á EM 20 ára en þeir töpuðu fyrir Spánverjum í úrslitaleik fyrir tveimur árum í Svartfjallalandi.

EMU20 karla: Leikir, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir

Úrslitaleikir EM 20 ára karla sunnudaginn 21. júlí:
1. sætið: Spánn – Portúgal, kl. 18.30.
3. sæti: Danmörk – Þýskaland, kl. 16.
5. sæti: Austurríki – Svíþjóð, kl. 12.20.
7. sæti: Noregur – Ísland, kl. 10.
- íslenskur tími.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -