- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Grátlega nærri tveimur stigum í Búdapest

Stiven Tobar Valencia og Benedikt Gunnar Óskarsson verða í eldlínunni með Val í kvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Valsmenn voru grátlega nærri sigri gegn Ferencváros (FTC) í kvöld í Búdapest í viðureign liðanna í 5. umferð Evrópudeildar karla í handknattleik. Bendegúz Bujdosó jafnaði metin fyrir heimamenn, 33:33, úr vítakasti þegar leiktíminn var úti. Vítakastið var til eftir sókn sem hófst nokkrum sekúndum fyrr eftir ólöglega miðju leikmanna FTC.


Arnór Snær Óskarsson hafði rétt áður komið Val yfir, 33:32.


Valsmenn eru þar með í fjórða sæti riðilsins með fimm stig eftir fimm leiki. FTC er með þrjú stig og fagnaði stigi kvöldsins eins og þeir hefðu unnið stórsigur. Ystad laumaði sér upp í þriðja sæti riðilsins með því að leggja franska liðið PAUC í Aix, 36:34. Ystad mætir í Origohöllina eftir viku.

Erfiður lokakafli

Þegar 18 mínútur voru til leiksloka í kvöld var Valur með afar góða stöðu, 26:19. Sjö mínútum síðar var forskotið komið niður í fimm mörk, 29:24. Síðustu 10 mínútur leiksins gerðu Valsmenn of mörg mistök. Þeir fóru illa með upplögð tækifæri og töpuðu þar að auki knettinum oft á einfaldan hátt sem varð til þess að FTC-liðið skoraði hvert markið á fætur öðru eftir hraðaupphlaup. Síðustu mínútur leiksins voru hnífjafnar og æsilega spennandi.


Tjörvi Týr vann ruðning 50 sekúndum fyrir leikslok, í stöðunni 32:32. Upp úr sókn Vals sem tók við skoraði Arnór Snær 33. markið af miklu harðfylgi.


Eftir slæma byrjun Vals í fyrri hálfleik sem einkenndist kannski helst af stórleik Kristóf Györi markvarðar FTC þá sneru Valsmenn leiknum sér í hag síðustu 12 mínútur fyrri hálfleiks. Þeir breyttu stöðunni úr 11:9 FTC í hag í 18:14 sér í vil fram að hálfleik.

Varnarleikurinn var frábær og hröð upphlaup skiluðu hverju markinu á fætur öðru. Fyrstu 10 til 12 mínútur síðari hálfleiks voru svipaðar. Þær lögðu grunn að sjö marka forskoti sem því miður nægði ekki til þess að vinna leikinn þegar upp var staðið.


Mörk Vals: Stiven Tobar Valencia 10, Benedikt Gunnar Óskarson 8, Arnór Snær Óskarsson 5, Finnur Ingi Stefánsson 3, Tjörvi Týr Gíslason 3, Aron Dagur Pálsson 2, Róbert Aron Hostert 1, Þorgils Jón Svölu Baldursson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 13, 28%.
Mörk FTC: Alex Bognár 7, Dávid Debreczeni 5, Bence Nagy 4, Bendegúz Bujdosó 4, Péter Kovacsics 4, Zsolt Balogh 3, Kristóf Csörgo 3, Dániel Füzi 2, Viktor Prainer 1.
Varin skot: Kristóf Györi 12, 32% – Ádám Borbély 3, 43%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -