- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Grátlegt eins marks tap eftir frábæran síðari hálfleik

- Auglýsing -

Íslenska landsliðið var grátlega nærri jafntefli við Serba í annarri umferð riðlakeppni HM kvenna í Porshe Arena í Stuttgart í kvöld. Eftir frábæra frammistöðu í 25 mínútur í síðari hálfleik var íslenska liðið hársbreidd frá öðru stiginu. Varið var frá Þóreyju Önnu Ásgeirsdóttur þegar fáeinar sekúndur voru til leiksloka. Serbar fögnuðu sigri og öruggu sæti í milliriðlakeppninni með tvö stig í farteskinu.


Þar með verður íslenska liðið að vinna Úrúgvæa á sunnudaginn í lokaumferð riðlakeppninnar til þess að komast í milliriðlakeppnina sem fram fer í Dortmund.

Hamskipti íslenska liðsins í síðari hálfleik verðskulduðu svo sannarlega annað stigið. Liðið vann nærri upp sjö marka forskot Serba sem hafa á að skipa reyndara og eldra liði.

Fyrri hálfleikur var í nokkuð góðu jafnvægi fyrsta stundarfjórðunginn. Síðan fór að fjara undan íslenska liðinu fljótlega eftir að það lenti þremur mörkum undir, 13:10. Stressið jókst í sóknarleiknum og mistökunum fjölgaði. Á sama tíma hélt vörnin ekki og Serbar röðuðu inn mörkum. Sérstaklega reyndist Cvijic línukona serbneska liðsins erfið. Hún er mætt til leiks með landsliðinu eftir að hafa verið í sex ár í fýlu.

Díana Dögg Magnúsdóttir, Katrín Tinna Jensdóttir, Elísa Elíasdóttir og Hafdís Renötudóttir. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Staðan var 19:13 í hálfleik, Serbum í vil og svo virtist sem nokkurs vonleysis væri farið að gæta.

Upphafsmínútur síðari hálfleiks voru erfiðar og Serbar komust mest sjö mörkum yfir, 21:14, áður en undanhaldið var stöðvað og leiknum svo sannarlega snúið úr vörn í sókn. Vonir tóku að kveikna um miðjan síðari hálfleik þegar forskot Serba var komið niður í fjögur mörk, 24:20. Íslenska vörnin var frábær og Hafdís Renötudóttir fór á kostum og varði hvað eftir annað, m.a. vítakast. Íslenska liðið vann upp forskotið og stemningin var öll á bandi Íslands, utan vallar sem innan. Þjóðverjarnir voru á bandi íslenska liðsins.

Tvisvar gafst tækifæri til þess að jafna metin. Varið var frá Dönu Björg Guðmundsdóttur í stöðunni 25:24, og aftur frá Þóreyju Önnu Ásgeirsdóttur á síðustu sekúndum í stöðunni, 27:26.

Matthildur Lilja Jónsdóttir og Katrín Tinna Jensdóttir. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Annað stigið hefði verið sætt og verðskuldað eftir alla vinnuna sem íslenska liðið sýndi í síðari hálfleik þegar Serbar skoruðu aðeins átta mörk og komust lítt áleiðis.

Niðurstaðan er grátlegt eins marks tap, 27:26, eftir frábæra frammistöðu í síðari hálfleik sem sýnir að íslenska liðið er komið lengra en talið var.


Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Sandra Erlingsdóttir 5/4, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Lovísa Thompson 2, Díana Dögg Magnúsdóttir 2, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1, Katrín Tinna Jensdóttir 1, Dana Björg Guðmundsdóttir 1, Thea Imani Sturludóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 11/1, 34,4% – Sara Sif Helgadóttir 1, 14,3%.

Ítarlegri tölfræði.

Handbolti.is var í Porsche Arena og fylgist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -