Íslendingaliðið Blomberg-Lippe tapaði naumlega fyrir franska liðinu Chambray Touraine Handball, 26:25, á heimavelli í fyrstu umferð riðlakeppni Evrópudeildar kvenna í handknattleik í dag. Hin gamalreynda Jovana Stoiljkovic skoraði sigurmark franska liðsins á síðustu sekúndum leiksins eftir að Andrea Jacobsen hafði jafnað metin, 25:25, 23 sekúndum áður en leiktíminn var á enda.
Franska liðið var fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:11, og var mest með sex marka forskot snemma í síðari hálfleik. Leikmenn Blomberg-Lippe náðu að vinna upp muninn og verðskulduðu annað stigið. En allt kom fyrir ekki.
Andrea Jacobsen skoraði þrjú mörk, átti 3 stoðsendingar, var með 1 fiskað vítakast og vann andstæðing einu sinni af leikvelli.
Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði 2 mörk, var með sjö sköpuð færi, 2 fiskuð vítaköst og náði 1 frákasti.
Elín Rósa Magnúsdóttir átti 1 stoðsendingu og var með 2 sköpuð færi.
Í Ungverjalandi á laugardag
Næsti leikur Blomberg-Lippe í riðlakeppninni verður á laugardaginn í Ungverjalandi gegn MOL Esztergom. Ungverska liðið tapaði í dag fyrir danska liðinu Nykøbing-Falster Håndbold, 33:29, í Danmörku.
Blomberg-Lippe komst í fjögurra liða úrslitahelgi Evrópudeildar á síðustu leiktíð.



