Grétar Ari Guðjónsson leikur í efstu deild franska handknattleiksins á næstu leiktíð. Hann hefur samið við nýliða deildarinnar, Sélestat, til næstu tveggja ára. Grétar Ari hefur undanfarin tvö ár leikið með Nice og staðið sig afar vel og verið á meðal allra bestu markvarða deildarinnar. Hann var m.a. með 34,2% hlutfallsmarkvörslu á nýliðinni leiktíð.
Sélestat vann sér sæti í 1. deild fyrr í þessum mánuði eftir að hafa unnið umspilskeppni efstu liðanna í 2. deild. Liðið hefur farið reglulega á milli efstu tveggja deildanna á undanförnum árum.
Sélestat tekur sæti í efstu deild ásamt Ivry sem vann deildina en Darri Aronsson gengur til liðs við Parísarfélagið í sumar eins áður hefur komið fram.
Sélestat Alsace Handball er með bækistöðvar í bænum Sélestat í norðausturhluta Frakklands, nærri landamærunum við Þýskaland. Eftir að ljóst varð að liðið tæki sæti í efstu deild á næstu leiktíð hefur það sótt liðsstyrk fyrir átökin sem framundan eru.
Grétar Ari kom til Nice fyrir tveimur árum frá Haukum en einnig hefur hann leikið sem lánsmaður með ÍR og Selfossi í Olísdeildinni.
Snorri Steinn Guðjónsson núverandi þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals er eini Íslendingurinn sem leikið hefur með Sélestat. Hann var í herbúðum liðsins leiktíðina 2014/2015.