- Auglýsing -
Markvörðurinn Grétar Ari Guðjónsson stóð svo sannarlega fyrir sínu í kvöld þegar Nice vann Angers á útivelli, 29:25, i frönsku B-deildinni í handknattleik. Grétar Ari varði 13 skot, þar af eitt vítakast, og var með 36% hlutfallsmarkvörslu þegar leikurinn var gerður upp.
Nice var með yfirhöndina alla leikinn. M.a. var fjögurra marka munur, 13:9, í hálfleik. Heimamenn byrjuðu síðari hálfleik af krafti og minnkuðu muninn í eitt mark, 14:13, áður en Grétar Ari og félagar tóku á rás og héldu leikmönnum Angers í hæfilegri fjarlægð frá sér allt til leiksloka.
Nice er í áttunda sæti deildarinnar með 14 stig eftir 13 leiki þegar níu umferðir eru eftir. Tvö efstu liðin fara upp í efstu deild þegar upp verður staðið í vor.
Grétar Ari kom til Nice á síðasta sumri. Hann hefur leikið afar vel með liðinu allt tímabilið og haldið hinum markverði liðsins út í kuldanum.
- Auglýsing -