- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gríðarlega ánægður með frábæra frammistöðu

Ágúst Þór Jóhannsson leggur á ráðin með leikmönnum í leiknum við Tyrki í morgun. Mynd/Dagur
- Auglýsing -

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U17 ára landsliðs kvenna í handknattleik var glaður í bragði þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið eftir öruggan níu marka sigur íslenska liðsins á Tyrkjum í annarri umferð B-riðils B-deildar Evrópumóts kvenna í handknattleik um hádegið. Eins og fram kom á handbolta.is fyrir hádegið þá lauk leiknum með níu marka sigri, 28:19, og hefur Ísland þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í mótinu.

Mörg hraðaupphlaup

„Frammistaðan var frábær og ég er af þeim sökum gríðarlega ánægður. Varnarleikurinn var framúrskarandi. Okkur tókst að keyra ótrúlega mörg hraðaupphlaup af fyrstu, annarri og þriðju bylgju sem skilað mörgum mörkum. Sóknarleikurinn var heilt yfir mjög agaður og stelpurnar duglegar að hlaupa til baka í vörnina enda Tyrkir með mjög gott lið,“ sagði Ágúst Þór við handbolta.is.


Eins og fram kom í samtali við Ágúst eftir sigurinn á Lettum í gær þá áttu níu leikmenn tyrkneska landsliðsins sæti í U19 ára landsliðinu sem tók þátt í Evrópukeppninni í síðasta mánuði.

Ágúst Þór og Jóhann Ingi Guðmundsson aðstoðarþjálfari bera saman bækur sína en Amelía Dís Einarsdóttir slekkur þorstan. Mynd/Dagur

Hlupum yfir Tyrki


„Við áttum erfitt uppdráttar í upphafi enda eru tyrknesku leikmennirnir líkamlega sterkir. Þegar á leið þá náðum við mjög góðum tökum á leiknum og héldum áfram að bæta við. Okkur tókst hreinlega að hlaupa yfir Tyrkina,“ sagði Ágúst Þór sem lagði áherslu á að allir leikmenn íslenska liðsins hafi lagt í púkkið að þessu sinni.

Tveggja daga hlé

„Þetta var sanngjarn og góður sigur sem gefur okkur sannarlega byr undir báða vængi fyrir framhaldið,“ sagði Ágúst Þór. Framundan er tveir dagar án leikja hjá íslenska liðinu áður en það mætir Hvíta-Rússlandi á miðvikudaginn. Hvít-Rússar unnu Letta áðan með 18 marka mun, 39:21, en þeim leik var ekki lokið þegar handbolti.is heyrði í Ágústi Þór.

Verða að mæta vel nestaðar

„Nú fáum við kærkomið tveggja daga frí frá leikjum. Morgundaginn nýtum við í endurheimt og þriðjudagurinn fer í undirbúning fyrir viðureignina við Hvít-Rússa. Við höfum ekki séð þær spila ennþá en þær eiga leik rétt á eftir. Í ljósi sögunnar reikna ég með að hvít-rússneska liðið sé sterkt. Þar af leiðandi þýðir ekkert annað fyrir okkur en að koma vel nestaðar í þá viðureign.


Fyrst og fremst snýst þó framhaldið um okkur sjálf og að það takist að stíga framfaraskref á milli leikja. Andinn í hópnum er góður en um leið erum við meðvituð um að til þess að ná góðum úrslitum í næstu leikjum verðum við að leika af aga og skynsemi,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U17 ára landsliðsins við handbolta.is í hádeginu.

Guðríður Guðjónsdóttir formaður landsliðsnefndar kvenna t.v. fylgist glöð með upphitun íslenska liðsins í morgun í íþróttahöllinni í Klaipeda i Litáen. Mynd/Dagur
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -