Gríðarlegur áhugi var skiljanlega í Danmörku fyrir útsendingu frá úrslitaleik Dana og Króata á heimsmeistaramóti karla í handknattleik. Aldrei hafa fleiri fylgst með útsendingum frá handboltaleik í landinu en samkvæmt opinberum tölum sá liðlega 2,1 milljón Dana úrslitaleikinn. Auk þess voru 15 af 17 vinælustu efnisþáttum í dönsku sjónvarpi í janúar tengdir HM í handknattleik sem Danir unnu í fjórða sinn í röð.
handbolti.is aldrei vinsælli
Reyndar var mikill áhugi á handknattleik víðar en í Danmörku meðan HM stóð yfir. Lestur frétta og frásagna á handbolti.is sló öll fyrri met í nýliðnum janúar og var liðlega 20% meiri en í nokkrum mánuði áður í fjögurra og hálfs árs sögu vefsins.
Fyrri metmánuður var janúar 2024 þegar íslenska karlalandsliðið tók þátt í EM í Þýskalandi. Aðsóknin var t.d. fjórfalt meiri en í janúar 2021 þegar handbolti.is var nýlega kominn á koppinn og fylgdi íslenska karlalandsliðinu í fyrsta sinn eftir á stórmót.
handbolti.is þakkar lesendum kærlega fyrir viðtökurnar svo og þeim sem keyptu auglýsingar eða styðja við útgáfuna með öðrum hætti.