- Auglýsing -
- Víðir í Garði hefur samið við grískan handknattleiksmann, Tilemachos Nakos, eftir því sem fram kemur á Instagram-síðu Víðis. Nakos er sagður hafa leikið með félagsliðum í næst efstu deild í Grikklandi og einnig á Kýpur. Víðir er að hefja sitt þriðja ár í 2. deild Íslandsmótsins þegar flautað verður til leiks í haust.
- Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétusson dæma viðureign Svíþjóðar og Danmerkur í milliriðlakeppni Evrópumóts 20 ára landsliða karla í Celje í Slóveníu í dag. Eftir tap Svía fyrir Norðmönnum á mótinu í gær verður mikið í húfi fyrir Svía í dag. Þeir verða að vinna til að halda lífi í vonum um sæti í undanúrslitum mótsins. Danir lögðu Þjóðverja í gær og geta tryggt sér sæti í undanúrslitum með sigri í dag. Sigurður og Svavar eiga hörkuleik fyrir höndum í dag.
- Hlynur Leifsson verður eftirlitsmaður á viðureign Króatíu og Slóveníu á EM 20 ára landsliða í dag. Liðin eru að kljást um sæti níu til sextán á Evópumótinu. Leikurinn fer fram í Tri Lilije-Arena í Lasko.
- Sandra Erlingsdóttir landsliðskona í handknattleik og leikmaður þýsku bikarmeistaranna TuS Metzingen fæddi dreng í gærmorgun í Þýskalandi. Faðir drengsins er Daníel Þór Ingason sambýlismaður Söndru og leikmaður þýska handknattleiksliðsins Balingen–Weilstetten. Barni og móður heilsast vel.
- Ein fremsta handknattleikskona síðustu ára, Stine Oftedal, leikur í kvöld sinn síðasta landsleik á ferlinum á heimavelli þegar norska landsliðið mætir því danska í vináttuleik í Gjøvik Fjellhall í Noregi. Oftedal tilkynnti í vetur að hún ætlaði að hætta sem atvinnukona í handknattleik eftir Ólympíuleikana í París og virðist ætla að standa við þá ákvörðun sína. Oftedal verður 33 ára í september. Hún lék sinn fyrsta landsleik fyrir 14 árum og hefur unnið allt sem hægt er að vinna, jafnt með félagsliðum og norska landsliðinu.
- Auglýsing -