- Auglýsing -
Grímur Hergeirsson verður ekki í þjálfarateymi meistaraflokks karla hjá ÍBV á næsta keppnistímabili. Þetta kemur fram í frétt Tíguls í Vestmannaeyjum. Grímur fékk þakklætisvott frá handknattleiksdeild ÍBV í lokahófi deildarinnar í gærkvöld.
Grímur kom inn í þjálfarateymið með Erlingi Richardssyni á síðasta sumri í framhaldið af flutningi til Vestmannaeyja þar sem Grímur tók við starfi lögreglustjóra.
Áður hafði Grímur þjálfað karlalið Selfoss 2019/2020 og verið aðstoðarþjálfari liðsins árin á undan m.a. þegar Selfoss varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn vorið 2019.
ÍBV lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla en beið lægri hlut í fjögurra leikja einvígi við Val sem lauk fyrir viku.
Eftir því sem næst verður komist heldur Erlingur Richardsson áfram þjálfun karlaliðs ÍBV á næsta keppnistímabili. Hann þarf hinsvegar að skyggnast um eftir aðstoðarmanni í stað Gríms.
Frétt Tíguls frá lokahófi handknattleiksdeildar ÍBV er hægt að nálgast hér.
- Auglýsing -