Örvhenta skyttan úr Vestmannaeyjum, Daníel Örn Griffin, hefur ákveðið að leika með Víkingi á næstu leiktíð sem hefst eftir um þrjár vikur. Hans fráfarandi félag, Grótta, segir frá vistaskiptunum í tilkynningu síðdegis.
„Handknattleiksdeild Gróttu og Handknattleiksdeild Víkings hafa komist að samkomulagi um félagaskipti Daníels Arnar Griffin yfir til Víkings. Daníel er fæddur árið 1999 og er örvhentur leikmaður sem leikur aðallega sem skytta. Hann kom til Gróttu árið 2020 og lék 41 leik með félaginu. Á síðasta tímabili skoraði Daníel 36 mörk í 18 leikjum og stóð varnarleikinn með miklum ágætum í Olísdeildinni.
Við þökkum Daníel kærlega fyrir frábæra tíma hjá Gróttu og óskum honum velfarnaðar á nýjum vettvangi,“ segir í tilkynningu handknattleiksdeildar Gróttu.
Með ÍBV og KA
Daníel Örn lék með ÍBV upp yngri flokka og upp í meistaraflokk og var m.a. í þreföldu sigurliði ÍBV vorið 2018. Hann lék með KA tímabilið endasleppta 2019/2020 en fluttist suður í Gróttu sumarið 2020. Vorið 2021 sleit Daníel Örn krossband og var ár frá keppni.
Karlar – helstu félagaskipti 2023