„Það var frábært að fá tækifæri þótt stemningin í salnum hafi verið sérstök þar sem engir áhorfendur voru á leiknum. En það var engu að síður gaman að koma inn á. Ég reyndi bara að gera mitt besta þann tíma sem ég fékk,“ sagði Magnús Óli Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik við handbolta.is í dag. Magnús Óli þreytti frumraun sína í leik með íslenska landsliðinu á HM í Egyptalandi í gær þegar hann lék með síðustu mínútur leiksins.
„Ef ég hugsa hálft ár aftur í tímann þá grunaði mig ekki að ég myndi spila á HM í janúar. Þetta er bara algjör snilld,“ sagði Magnús Óli sem hefur aðeins leikið tvo handboltaleiki síðan í byrjun október. Báðir eru landsleikir. Annarsvegar í gærkvöld og hinsvegar gegn Litháen í Laugardalshöllinni í byrjun nóvember í undankeppni EM. „Ég reiknaði með að hléið heima myndi koma í veg fyrir að ég ætti möguleika á að fara með á HM.“
„Ég er ánægður með að fá traust frá þjálfaranum, bæði að koma með á HM og að fá svo tækifæri. Ég reyni bara mitt besta við að njóta stundarinnar og hafa eins gaman af þessu öllu saman og hægt er,“ segir Magnús Óli sem eins og aðrir leikmenn í landsliðshópnum vonast til að fá tækifæri í leiknum við Marokkó annað kvöld.
„Ég vona það en aðalatriðið er að við vinnum leikinn á morgun. Vonandi leikum við áfram af krafti. Við megum búast við hverju sem er af liði Marokkó. Á æfingunni í dag lögðum við línurnar og höfum farið vel yfir leik Marokkómanna á fundum. Við verðum klárir í slaginn,“ sagði Magnús Óli Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í Kaíró síðdegis í dag.