- Auglýsing -
- Auglýsing -

Guðjón L. hættur hjá EHF – hélt að ég ætti ár eftir

Guðjón L. Sigurðsson t.v. tekur við þakklætisvotti úr hendi Guðmundar B. Ólafssonar formanns HSÍ á síðasta ári eftir að hafa verið við dómgæslu í 50 ár. Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Guðjón L. Sigurðsson hefur lokið störfum sem eftirlitsmaður á leikjum á vegum Handknattleikssambands Evrópu, EHF. Honum hefur verið gert að hætta vegna aldurs en Guðjón er 69 ára gamall. Guðjón mun hinsvegar halda ótrauður áfram í hlutverki eftirlitsmanns á leikjum á vegum HSÍ en hann hóf á dögunum 52. tímabilið sem dómari og síðar eftirlitsmaður.

Fékk óvart auka ár

„Ég hélt að aldurshámarkið væri 70 ár og að þar af leiðandi ætti ég eitt tímabil eftir en EHF tilkynnti mér að mörkin væru við 68 ára aldur. Ég hafi óvart fengið auka ár á síðasta tímabili,“ sagði Guðjón í samtali við handbolta.is í dag.

Guðjón er skiljanlega vonsvikinn enda í góðu formi auk þess að brenna sem fyrr fyrir störfum eftirlitsmanna og dómara sem hann hefur komið nærri í ríflega 50 ár. „Það verður jafnt yfir alla að ganga,“ sagði Guðjón af yfirvegun við handbolta.is.

Aldurshámark dómara hækkað

Nýverið hækkaði EHF hámarksaldur dómara í alþjóðlegri keppni úr 50 í 55 ár. Hámarksaldur eftirlitsmanna er óbreyttur, 68 ár.

Guðjón var eftirlitsmaður á leikjum EHF frá 2006. Áður var hann IHF/EHF dómari frá 1990 til 2005. Leikirnir skipta mörgum hundruðum, flestir í Evrópu en einnig í öðrum heimsálfum.

Endurnýjuð kynni

„Ég geng stoltur og með söknuði frá borði og langar að þakka öllum EHF vinum mínum fyrir kynnin og samveruna sem hefur verið mér dýrmæt reynsla. Um leið kem ég tvíefldur til leiks hér heima og endurnýji kynnin mín af dómaranefnd um leið og ég hef mitt 52. tímabil fyrir HSÍ í störfum tengdum dómurum hér heima,“ skrifaði Guðjón L. Sigurðsson á Facebook í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -