- Auglýsing -
Guðjón Valur Sigurðsson hefur verið valinn þjálfari keppnistímabilsins í þýsku 2. deildinni í handknattleik en að valinu standa þjálfarar deildarinnar. Greint var frá niðurstöðum í dag og kemur hún e.t.v. fáum á óvart þar sem lið Guðjóns Vals, Gummersbach, hefur haft yfirburði í deildinni og hefur fyrir löngu tryggt sér efsta sætið og keppnisrétt í 1. deild á næstu leiktíð.
Guðjón Valur tók við þjálfun Gummersbach sumarið 2020 eftir að hafa lagt skóna á hilluna að loknum löngum og afar glæsilegum ferli sem leikmaður. Undir hans stjórn var Gummersbach hársbreidd frá því að vinna 2. deild leiktíðina 2020/2021. Á yfirstandandi keppnistímabili hefur Gummersbach haft yfirburði í deildinni og kominn er meira en mánuður síðan að liðið var öruggt um sæti í 1. deild.
Guðjón Valur fetaði þar með í fótspor Aðalsteins Eyjólfssonar, sem var útnefndur þjálfari ársins í 2. deild 2017, þegar hann kom Hüttenberg upp í 1. deild.
- Auglýsing -