Guðmundur Bragi Ástþórsson hefur kvatt uppeldisfélag sitt, Hauka, og skrifað undir tveggja ára samning við danska úrvalsdeildarliðið Bjerringbro/Silkeborg. Félagið staðfesti komu Hafnfirðingsins í morgun og segir hann mæta á æfingu hjá liðinu í dag. Svo skemmtilega vill til að Guðmundur Bragi á 22 ára afmæli í dag.
Orðrómur staðfestur
Þar með hefur verið staðfestur orðrómur sem uppi hefur verið um skeið og handbolti.is sagði m.a. frá á dögunum en það var Handkastið sem fyrst sagði frá væntanlegum vistaskiptum Guðmundar Braga á samfélagsmiðlinum X.
Guðmundur Bragi hefur verið prímusmótor Haukaliðsins undanfarin tvö ár eftir að hafa gert það gott sem lánsmaður hjá Aftureldingu um nokkurt skeið.
Nýr þjálfari
Bjerringbro/Silkborg, sem er með bækistöðvar á miðju Jótlandi, hafnaði í fjórða sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í vor eftir að hafa fatast flugið þegar á leið tímabilið. Patrick Westerholm þjálfara var sagt upp störfum 11. apríl eftir að liðið hafði tapað sjö af átta undangengnum leikjum. M.a. var liðið nokkuð frá sæti í undanúrslitum um danska meistaratitilinn.
Þarf að gefa honum tíma
Simon Sørensen aðstoðarþjálfari tók við þjálfun Bjerringbro/Silkeborg af Westerholm og á dögunum var gamla brýnið Erik Veje Rasmussen ráðinn aðstoðarþjálfari. Sørensen segir á heimasíðu Bjerringbro/Silkeborg binda vonir við komu Guðmundar Braga til félagsins. Um leið verði að hafa í huga að pilturinn þurfi tíma til þess að kynnast nýju umhverfi.
Margir öflugir leikmenn eru í herbúðum Bjerringbro/Silkeborg. Þeirra þekktastur er væntanlega landsliðsmaðurinn Rasmus Lauge.
Þráinn Orri Jónsson, Kári Kristján Kristjánsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson eru á meðal íslenskra handknattleiksmanna sem leikið hafa fyrir lið Bjerringbro/Silkeborg.
Karlar – helstu félagaskipti 2024