Handknattleiksmaðurinn Guðmundur Bragi Ástþórsson úr Haukum er samkvæmt heimildum Handkastsins á leiðinni til danska úrvalsdeildarliðsins Bjerringbro/Silkeborg. Þetta hefur handkastið samkvæmt heimildum og segir frá á X, áður Twitter í dag.
Guðmundur Bragi Ástþórsson er samkvæmt heimildum Handkastsins á leiðinni til Danmerkur. Guðmundur er sagður vera á leið til Bjerringbro-Silkeborg en liðið endaði í 4.sæti dönsku deildarinnar í fyrra. #Handkastið pic.twitter.com/uxEsMBEE9T
— Handkastið (@handkastid) July 9, 2024
Guðmundur Bragi hefur áður leitað fyrir sér utan landssteinanna. M.a. var hann um skeið til reynslu á ASV Hamm Westfalen fyrir tveimur árum.
Bjerringbro/Silkborg, sem er með bækistöðvar á miðju Jótlandi, hafnaði í fjórða sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í vor eftir að hafa fatast flugið þegar á leið tímabilið. Patrick Westerholm þjálfara var sagt upp störfum 11. apríl eftir að liðið hafði tapað sjö af átta undangengnum leikjum. M.a. var liðið nokkuð frá sæti í undanúrslitum um danska meistaratitilinn.
Simon Sørensen aðstoðarþjálfari tók við þjálfun Bjerringbro/Silkeborg af Westerholm og á dögunum var gamla brýnið Erik Veje Rasmussen ráðinn aðstoðarþjálfari.
Margir öflugir leikmenn eru í herbúðum Bjerringbro/Silkeborg. Þeirra þekktastur er væntanlega landsliðsmaðurinn Rasmus Lauge.
Þráinn Orri Jónsson, Kári Kristján Kristjánsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson eru á meðal íslenskra handknattleiksmanna sem leikið hafa fyrir lið Bjerringbro/Silkeborg.