Guðmundur Þórður Guðmundsson og liðsmenn hans í Fredericia HK höfðu betur þegar þeir mættu Arnóri Atlasyni og lærisveinum hans í TTH Holstebro á heimavelli í dag í 14. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik, 31:24.
Þetta var níundi sigurleikur Fredericia HK í deildinni og situr liðið í þriðja sæti með 19 stig, er fjórum stigum á eftir Aalborg og GOG sem hafa 23 stig hvort lið í efstu sætunum tveimur.
Einar Þorsteinn Ólafsson kom aðeins við sögu í varnarleik Fredericia HK. Arnór Viðarsson er áfram úti í kuldanum.
Jón Ísak Halldórsson kom lítillega við sögu hjá TTH Holstebro sem er í sjöunda sæti með 15 stig.
Skellur hjá Donna og félögum
Kristján Örn Kristjánsson, Donni, og félagar hans í Skanderborg AGF töpuðu illa fyrir Mors-Thy, 35:21, í dag. Donni skoraði eitt mark í sex skotum og átti eina stoðsendingu. Skanderborg er í sæti fyrir ofan Holstebro, þ.e. í sjötta sæti með 15 stig eftir 14 leiki.
Ribe-Esbjerg stóð í meisturunum
Ribe-Esbjerg-liðið hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu og situr í næsta neðsta sæti úrvalsdeildarinnar. Það var reyndar ekki að sjá í dag því liðið veitti meisturum Aalborg Håndbold harða keppni í Blue Water Dokken í Esbjerg. Meistararnir náðu ekki frumkvæðinu fyrr en á síðustu 10 mínútum leiksins sem nægði til að vinna með tveggja marka mun, 39:37.
Ribe-Esbjerg var með þriggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 22:19.
Elvar og Ágúst stóðu fyrir sínu
Elvar Ásgeirsson skoraði þrjú mörk í fjórum skotum fyrir Ribe-Esbjerg. Hann gaf einnig tvær stoðsendingar og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
Ágúst Elí Björgvinsson var í marki Ribe-Esbjerg stóran hluta leiksins og varði 10 skot, þar af eitt vítakast, 26%.
Staðan í dönsku úrvalsdeildinni: