Guðmundur B. Ólafsson var sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ fyrir framúrskarandi störf fyrir HSÍ er hann lét af embætti formanns HSÍ á ársþingi sambandsins í gær eftir 12 ár og alls 16 ár í stjórn sambandsins.
Guðmundur hlaut einnig gullkross HSÍ, æðsta heiðursmerki HSÍ á ársþinginu, og var það Júlíus Hafstein heiðursformaður HSÍ sem afhenti Guðmundi krossinn sem aðeins örfáir hafa hlotið.

Reynir Þór Stefánsson fráfarandi varaformaður HSÍ og Páll Þórólfsson fráfarandi formaður landsliðsnefndar karla var afhent gullmerki HSÍ fyrir áralöng störf sín fyrir sambandið.

Áður en þinginu var slitið færði Jón Halldórsson nýkjörinn formaður HSÍ forvera sínum gjafir í þakklætisskyni fyrir þrotlausa vinnu fyrir sambandið um árabil.