- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Guðmundur Þórður og Fredericia HK fá sæti í Meistaradeild Evrópu

Guðmundur Þórður Guðmundsson verður með Fredericia í eldlínu Meistaradeildar Evrópu á næstu leiktíð. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Guðmundur Þórður Guðmundsson og liðsmenn hans í danska handknattleiksliðinu Fredericia HK taka þátt í Meistaradeild Evrópu (Machineseeker EHF Champions League) í handknatteik karla á næstu leiktíð. Liðið fær sérstakan keppnisrétt, svokallað „wild card“, samkvæmt ákvörðun stjórnar Handknattleikssambands Evrópu, EHF, á fundi í morgun og verður þar með eitt 16 liða í riðlakeppni Meistaradeild á næsta keppnistímabili.

Fredericia HK hafnaði í öðru sæti í dönsku úrvalsdeildinni í vor og tapaði naumlega í þriggja leikja rimmu við Aalborg Håndbold um danska meistaratitilinn.

Með Fredericia HK leika íslensku handknattleiksmennirnir Arnór Viðarsson og Einar Þorsteinn Ólafsson. Arnór gengur til liðs við félagið í sumar frá ÍBV.

Rós í hnappagatið

Þátttakan í Meistaradeildinni er enn ein rósin í hnappagat Guðmundar Þórðar Guðmundssonar en undir hans stjórn hefur lið Fredericia HK tekið stórstígum framförum. Fredericia HK hefur aldrei tekið þátt í Meistaradeild Evrópu í raun eru fjórir áratugir síðan lið félagsins var síðast með í Evrópukeppni félagsliða.

Um leið er þátttakan viðurkenning fyrir danskan handknattleik en Danir eiga tvö lið í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki á næsta keppnistímabili. Auk Fredericia HK tekur Aalborg Håndbold þátt í Meistaradeildinni.

Sjö liðum boðið

HC Zagreb (Króatíu), HBC Nantes (Frakkland), OTP Bank-Pick Szeged (Ungverjalandi), HC Eurofarm Pelister (Norður Makedóníu), Industria Kielce (Póllandi), og Dinamo Búkarest (Rúmeníu) fengu einnig sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð samkvæmt ákvörðun stjórnar EHF, eins og Fredericia HK.

Níu voru örugg

Áður en stjórn EHF tók ákvörðun sína var ljóst að eftirtalin lið voru örugg um sæti í Meistaradeildinni í gegnum landskvóta:
Aalborg Håndbold (Danmörku), Barcelona (Spáni), Paris Saint-Germain Handball (Frakklandi), SC Magdeburg og Füchse Berlin (Þýskalandi), Veszprém HC (Ungverjalandi), Kolstad Håndball (Noregi), Orlen Wisla Plock (Póllandi), og Sporting CP (Portúgal).

Fimm liðum synjað

Óskum um sæti í Meistardeildinni frá Elverum Håndball (Noregi), FC Porto (Portúgal), Tatran Presov (Slóvakíu), Bidasoa Irun (Spáni), og Kadetten Schaffhausen (Sviss) var hafnað. Liðin geta fengið sæti í Evrópudeildinni.

Dregið eftir viku

Dregið verður í riðla Meistaradeildarinnar, tveir átta liða riðlar, í Vínarborg eftir viku, fimmtudaginn 27. júní. Fyrsta umferð verður leikin 11. og 12. september.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -