Guðmundur Þórður Guðmundsson og Halldór Jóhann Sigfússon stýrðu liðum sínum til sigurs í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla í kvöld. Íslendingarnir í Ribe-Esbjerg máttu á hinn bóginn bíta í súra eplið í heimsókn til Bjerringbro/Silkeborg.
Einar Þorsteinn Ólafsson lék með Fredericia HK í öruggum sigri á nýliðum TMS Ringsted, 33:26, á heimavelli. Með sigrinum færðust liðsmenn Guðmundar Þórðar í Fredericia HK upp í annað sæti deildarinnar með níu stig eftir sjö leiki. Einar Þorsteinn skoraði ekki mark en var vafalaust traustur í því sem hann tók sér fyrir hendur í leiknum.
Upp úr fallsæti
Liðsmenn Nordsjælland, sem Halldór Jóhann tók við þjálfun á í sumar, komust upp úr neðsta sæti úrvalsdeildarinnar með sigri á heimavelli á SønderjyskE, 32:30, á heimavelli. Þetta var annar sigur Nordsjælland sem sendi þar með Kolding á botninn með þrjú stig, stigi á eftir Nordsjælland, Ringsted og SønderjyskE. Kolding, sem var spútniklið deildarinnar á síðustu leiktíð, á leik inni á þrjú liðin sem eru fyrir ofan.
Varði vítakast
Bjerringbro/Silkeborg er með níu stig í þriðja sæti deildarinnar eins og Fredericia HK eftir sigur á Ribe-Esbjerg í kvöld, 35:33.
Elvar Ásgeirsson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu fyrir lið Ribe-Esbjerg. Ágúst Elí Björgvinsson varði eitt vítakast en var annars ekki langa stund í marki Ribe-Esbjerg.
Stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og í fleirum deildum Evrópu er hér að finna.