- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gummersbach fyrst liða til að vinna stig af Flensburg

Elliði Snær Viðarsson landsliðsmaður og leikmaður Gummersbach. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Hinn gamalreyndi franski handknattleiksmaður Kentin Mahé tryggði Gummersbach annað stigið gegn Flensburg í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag, 29:29. Hann jafnaði metin rétt áður en leiktíminn var úti. Gummersbach varð þar með fyrsta liðið til þess að vinna stig af Flensburg í deildinni á leiktíðinni.

Gummersbach situr áfram í fimmta sæti deildarinnar með sjö stig eftir sex leiki, tveimur stigum og einum leik á eftir Flensburg sem er efst. Staðan í deildinni er neðst í greininni.

Elliði Snær fastur fyrir

Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark fyrir Gummersbach í leiknum. Hann var fastur fyrir í vörninni og mátti bíta í það súra epli að vera vikið af leikvelli í tvígang. Það er nokkuð sem Eyjamaðurinn kippir sér ekki endilega upp við. Mahé var markahæstur með átta mörk. Georgíumaðurinn Giorgi Tskhovrebadze var næstur með fimm mörk. Guðjón Valur Sigurðsson var að vanda við stjórn Gummersbach-liðsins.

Teitur Örn ekki með

Teitur Örn Einarsson var ekki í leikmannahópi Gummersbach fremur en í síðustu leikjum. Teitur Örn meiddist fyrir um tveimur vikum. Hann hefði vafalaust ekki slegið hendinni á móti því að mæta fyrrverandi samherjum en það verður að bíða betri tíma.

Emil Jakobsen var markahæstur hjá Flensburg með átta mörk.

Andri Már með sex mörk

Lemgo hefur verið sýnd veiði en ekki gefin fram til þessa á leiktíðinni. Það fengu leikmenn Leipzig að finna fyrir í dag þegar þeir sóttu Lemgo heim. Lokatölur, 33:28. Andri Már Rúnarsson lék afar vel fyrir Leipzig og skoraði sex mörk og auk þess að eiga stoðsendingu. Viggó Kristjánsson var áfram utan Leipzig-liðsins vegna meiðsla. Franz Semper tók stöðu Viggós og skoraði níu mörk. Rúnar Sigtryggsson er sem fyrr þjálfari Leipzig en liðið er í áttunda sæti með sex stig eftir fimm leiki.

Tim Suton skoraði 10 mörk fyrir Lemgo.

Baráttusigur í gær

Í gær vann MT Melsungen liði Birtigheim, 26:24, í jöfnum og spennandi leik. Liðið er ásamt Füchse Berlin og Hannover-Burgdorf með átta stig eftir fimm leiki. Elvar Örn Jónsson skoraði tvisvar og Arnar Freyr Arnarson einu sinni fyrir Melsungen-liðið.

Hannover-Burgdorf vann einnig sína viðureign í gær þegar Eisenach kom í heimsókn, 28:26. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.

Önnur úrslit í dag og í gær:
Erlangen – Potsdam 23:19.
Wetzlar – Füchse Berlin 25:34.
Kiel – Stuttgart 29:24.

Staðan í þýsku 1. deildinni:

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -