- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gummersbach stefnir hraðbyri upp í efstu deild

Elliði Snær Viðarsson leikmaður Gummersbach og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Gummersbach færist stöðugt nær sæti í þýsku 1. deildinni í handknattleik á næsta keppnistímabili. Í kvöld vann liðið 26. sigurinn í 2. deildinni á leiktíðinni og hefur 11 stiga forskot í efsta sæti þegar liðið á sex leiki eftir. Staðan í deildinni er neðst í þessari grein.


Gummersbach vann Bayer Dormagen á útivelli í kvöld, 36:30, eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik, 15:14. Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk í sex skotum, átti þrjár stoðsendingar og var einu sinni vísað af leikvelli. Hann heldur þar með áfram að gera það gott undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá Gummersbach. Martin Nagy, fyrrverandi markvörður Vals, varði þrjú skot á 20 mínútum í marki Gummersbach.


Hinsvegar syrtir stöðugt í álinn hjá EHV Aue. Stefnir í að aðeins kraftaverk geti forðað liðinu frá falli úr deildinni við lok leiktíðar. Aue tapaði í kvöld fyrir Grosswallstadt á heimavelli, 27:19, og rekur sem fyrr lestina.


Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði ekki mark fyrir Aue, átti eina stoðsendingu og var einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur. Sveinbjörn Pétursson náði sér ekki á strik og varði eitt skot þann stundarfjórðung sem hann var í marki liðsins. Færeyingurinn Áki Egilsnes, sem lék með KA um árabil, var markahæstur hjá Aue með fimm mörk.

Staðan:

Standings provided by SofaScore LiveScore
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -