Svo kann að fara að ungverska handknattleikssambandið dragi sig út úr hlutverki gestgjafi Evrópumóts kvenna í handknattleik árið 2024. Til stendur að Ungverjar haldi mótið í samstarfi við Austurríkismenn og Svisslendinga. Ástæðan er orkukreppa sem ríkir víða í Evrópu um þessar mundir. M.a. hefur íþróttamannvirkjum í Ungverjalandi verið lokað til að spara orku. Aðgengi að öðrum hefur verið takmarkað.
Ungverjar leggja mikið kapp á að spara orku enda hefur verð á gasi og olíu hækkað mikið í verði eftir innrás Rússa í Úkraínu snemma á síðasta ári.
Er það forsvararanlegt?
Máté Kocsis, forseti ungverska handknattleikssambandsins segir í samtali við heimasíðu sambandsins, mksz.hu, að meiri líkur en minni séu á að sambandið hætti við mótahaldið eða dragi verulega saman seglin og verði í aukahlutverki. Menn verði einfaldlega að spyrja sjálfa sig að því hvort það sé forsvaranlegt að eyða gríðarlegum fjárhæðum í að kynda upp gríðarstór íþróttamannvirki á sama tíma og börn og unglingar hafa ekki aðgang að íþróttamannvirkjum vegna sparnaðar í upphitun.
Gríðarlegur kostnaður
Kocsis segir að kostnaður við mótahaldið hafi rokið upp úr öllu valdi eftir innrás Rússa í Úkraínu. Ekki sjái fyrir endann á hækkunum. Alltént bendir fátt til þess að verðið lækki. Þar af leiðandi sé sambandið knúið til þess að endurskoða sinn þátt í mótahaldinu sem átti að vera verulegur. Það verður væntanlega gert á ársþingi ungverska handknattleikssambandsins í vor þar sem Kocsis hyggst ekki sækjast eftir endurkjöri eftir átta ár í stóli forseta. Mikil gróska hefur verið í handknattleik í Ungverjalandi á árum Kocsis. M.a. hefur fjöldi iðkenda fjórfaldast.
EHF fylgist með
Handknattleikssamband Evrópu, EHF, sendi frá sér tilkynningu í gær vegna orða Kocsis. Þar segir m.a. að yfirlýsing hans hafi komið á óvart. Þangað til formleg tilkynning hafi borist frá ungverska handknattleikssambandinu verði engin breyting á þeirri ætlan að halda mótið í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi.
Til standi að fjalla nánar um þetta mál á fundi framkvæmdastjórnar EHF í lok þessa mánaðar.
Ekki óþekkt að hætta við
Tólf ár eru liðin síðan hollenska handknattleikssambandið hætti við að halda EM kvenna aðeins hálfu ári áður en til stóð að halda mótið. Serbar tóku mótið að sér með skömmum fyrirvara og Hollendingum var vísað úr keppni.