Afturelding hefur séð þann kost vænstan að draga karlalið sitt út úr Evrópubikarkeppninni í handknattleik en til stóð að liðið mætti Granitas-Karys frá Litháen í tvígang um og eftir miðjan næsta mánuð. Ákvörðunin er tekin vegna ferðatakmarkana og sóttvarnaákvæða af völdum kórónufaraldursins.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem handbolta.is barst frá handknattleiksdeild Aftureldingar fyrir stundu og má lesa hér að neðan:
„Vegna ferðatakmarkana og sóttvarnarákvæða af völdum kórónuveirufaraldursins, sér stjórn handknattleiksdeildar Afturelding sér ekki fært annað en að draga karlalið sitt úr Evrópukeppninni í handbolta í ár. Afturelding átti að leika við Granitas-Karys frá Litháen 14.nóv og aftur 21.nóv, Granitas mun því fara sjálfkrafa áfram í 3. umferð keppninnar. Því miður sér stjórn deildarinnar ekki annað í stöðunni og í raun það eina ábyrga að gera í ljósi þess ástands sem ríkir nú um allan heim.“
Fyrr á keppnistímabilinu hefur Valur dregið kvenna,- og karlalið sín út úr Evrópumótum félagsliða vegna kórónuveirunnar.
Karlalið FH og kvennalið KA/Þórs eru ennþá skráð til leiks.