Davíð Lúther Sigurðsson staðfestir í samtali við Heimildina að hann hafi sagt sig úr stjórn Handknattleikssamabands Íslands, HSÍ, á miðvikudaginn. Ástæða úrsagnarinnar er samningur sem HSÍ gerði við Arnarlax og greint var frá í vikunni. Samningurinn hefur víða fallið í grýttan jarðveg.
„Ég hætti um leið og ég frétti að það hefði verið ákveðið að semja við Arnarlax,“ segir Davíð Lúther í samtali við Heimildina sem einnig birtir úrsagnarbréf hans.
Samningur HSÍ og Arnarlax var til umræðu á stjórnarfundi HSÍ 6. nóvember sem Davíð Lúther gat ekki setið. Hann segist ekki hafa frétt af samningnum fyrr en hann var tilkynntur þótt hann eigi að vera formaður markaðsnefndar en viðlíka samningur eins og þessi hafi klárlega með markaðsmál HSÍ að gera.
Var ekki hafður með í ráðum
Davíð Lúther tók sæti í stjórn HSÍ í vor og var um leið formaður markaðsnefndar. Hann segist ekki hafa verið hafður með í ráðum þegar samið var við Arnarlax. Samningurinn hafi komið honum í opna skjöldu.
Auk segist Davíð Lúther vera laxveiðimaður og stuðningsmaður náttúruverndarsamtakanna Icelandic Wildlife Fund. Samtökin hafa það yfirlýsta markmið að berjast gegn laxeldi í sjókvíum. Davíð Lúther segir að samvisku sinnar vegna hafi hann ekki getað setið áfram í stjórn HSÍ eftir samninginn við Arnarlax.