„Ítalir eru þolinmóðir og góðir í sínum leik, heilt yfir öruggir og góðir í sínum leik,“ segir Ýmir Örn Gíslason landsliðsmaður í handknattleik um andstæðing íslenska landsliðsins í upphafsleik Evrópumótsins í handknattleik karla í dag, Ítalíu. Viðureignin hefst klukkan 17 í Kristianstad Arena í Svíþjóð.
Níunda stórmótið
Ýmir Örn leikur í dag sinn 109. landsleik og hefur um leið þátttöku á sínu níunda stórmóti. Það fyrsta var EM 2018 undir stjórn Geirs Sveinssonar.
„Ítalir fóru vel í gegnum undankeppnina og verðskulda svo sannarlega að vera hér á Evrópumótinu. Liðið varð að leika vel í undankeppninni til þess að vera í þessum sporum. Þeir hafa sýnt miklar framfarir á undanförnum tveimur til þremur árum. Við verðum svo sannarlega að vera tilbúnir í hörkuleik frá fyrstu mínútum og við verðum það,“ segir Ýmir Örn og bætir við að Slóvenar hafi um skeið í leiknum við íslenska liðið á mótinu í París á dögunum ekki leikið á ósvipaðan hátt og Ítalir. Þá hafi íslenska liðið aðeins komist í snertingu við það sem má búast við í leiknum í dag.
„Heilt yfir gekk það vel. Okkur tókst að leggja það vel upp,“ segir Ýmir Örn Gíslason landsliðsmaður í handknattleik.



