„Okkur hefur gengið alveg ótrúlega vel, það er víst óhætt að segja það,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslandsmeistara Vals í samtali við handbolta.is eftir að lið hans tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna þriðja árið í röð og í fjórða sinn á átta árum undir stjórn Ágústs Þórs.
„Við höfum unnið titilinn þrjú ár í röð, unnið öll lokaeinvígin þrjú núll og ekki tapað nema einum leik í allri úrslitakeppninni þessi þrjú ár. Ég er gríðarlega stoltur af stelpunum,“ sagði Ágúst Þór sem farið hefur með Val í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn á hverju vori frá 2018 að vorinu 2020 undanskildu þegar úrslitakeppnin féll niður.
Hafa verið forréttindi
Ágúst segir að árin átta sem þjálfari kvennaliðs Vals hafi verið mjög skemmtilegan tíma. „Það hafa verið forréttindi að þjálfa frábæra leikmenn og hafa með mér gríðarlega öflugt þjálfarateymi á þessum árum. Við höfum verið mjög sigursæl auk þess að taka þátt í Evrópukeppni félagsliða á hverju ári. Endirinn er sá að við verðum Evrópubikarmeistarar og Íslandsmeistarar á heimavelli,“ segir Ágúst Þór sem tekur við þjálfun karlaliðs Vals í sumar. Anton Rúnarsson verður eftirmaður Ágústs Þórs með kvennaliðið.
Ágúst Þór tók við þjálfun kvennaliðs Vals sumarið 2017. Síðan hefur Valur unnið Íslandsmeistaratitilinn fjórum sinnum, 2019, 2023, 2024 og 2025, bikarmeistari 2019, 2022 og 2024, deildarmeistarar 2018, 2024 og 2025. Evrópubikarmeistarar 2025, fyrst íslenska kvennaliða.
Auk þess lék Valur til úrslita á Íslandsmótinu 2018, 2021 og 2022 og hreppti silfurverðlaun auk silfurverðlauna í bikarkeppninni 2023.
Sjö síðustu ár hefur Valur átt sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar.
Mæti bara sem pabbi
„Ég hlakka til þess að fylgjast með stelpunum á komandi tímabilinu. Þá mæti ég bara sem pabbi og læt almennilega í mér heyra,“ sagði Ágúst Þór og glotti við tönn en hann á tvær dætur í Valsliðinu, Ásdísi Þóru og Lilju.
„Anton tekur við liðinu. Það er bara spennandi tímar framundan. Tvær eru að hætta [Hildigunnur Einarsdóttir og Sigríður Hauksdóttir] og Elín Rósa fer til Þýskalands. Mikill efniviður er fyrir hendi í yngri leikmönnum. Liðið verður áfram feikiöflugt,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslands- og Evrópubikarmeistara Vals í handknattleik kvenna.
Þess má geta að lokum að Valur er Íslandsmeistari bæði í 3. og 4. flokki kvenna. Nokkrar úr 3. flokksliðinu hafa tekið þátt í leikjum meistaraflokks á keppnistímabilinu sem lauk í gær
Lengra viðtal við Ágúst Þór er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Olísdeild kvenna – fréttasíða.