Hafdís Renötudóttir landsliðsmarkvörður átti stórleik fyrir Val þegar Íslandsmeistararnir unnu ÍBV með 10 marka mun, 26:16, í annarri umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Vestmannaeyjum í kvöld. Hafdís varði 15 skot, var með 50% hlutfallsmarkvörslu, og gerði leikmönnum ÍBV gramt í geði.
ÍBV skoraði til að mynda aðeins fimm mörk í fyrri hálfleik. Reyndar skoraði Valur aðeins 10 mörk í fyrri hálfleik því Marta Wawrzykowska var einnig vel með á nótunum í marki ÍBV. Hún varði þriðja hvert skot sem á markið kom, þegar leikurinn var gerður upp.
Valur var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Eftir fimm marka forskot í hálfleik þá bættu leikmenn Vals frekar í þegar kom fram í síðari hálfleik.
Valur hefur fjögur stig að loknum tveimur fyrstu leikjunum. ÍBV er hefur tvö stig frá sigrinum á Gróttu á síðasta laugardag. Margir ungir leikmenn skipa ÍBV-liðið um þessar mundir og talsverð breyting hefur orðið á undanfarin tvö ár. Reyndari leikmenn eru ennþá fyrir hendi.
Auk Hafdísar var liðsheildin öflug hjá Valsliðinu sem m.a. lýsir sér í að 11 leikmenn skoruðu mörkin 26. Næsti leikur Vals verður við Selfoss á heimavelli á miðvikudaginn. Sama dag sækir ÍBV lið ÍR heim í Skógarsel.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 4/1, Britney Emilie Florianne Cots 4, Yllka Shatri 3, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 1, Birna María Unnarsdóttir 1, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 1, Sunna Jónsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 11/1, 33,3% – Ólöf Maren Bjarnadóttir 1, 33,3%.
Mörk Vals: Lovísa Thompson 5, Thea Imani Sturludóttir 4, Lilja Ágústsdóttir 4, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 4/3, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 1, Guðrún Hekla Traustadóttir 1, Ágústa Rún Jónasdóttir 1, Arna Karitas Eiríksdóttir 1, Hildur Björnsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 15, 50% – Silja Müller 3, 100%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.