Eins og mál standa þá leikur Hafsteinn Óli Ramos Rocha ekki með landsliði Grænhöfðaeyja á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem hefst í næstu viku. Í gær ákvað Jorge Rito landsliðsþjálfari Grænhöfðaeyja að vera aðeins með 16 leikmenn til taks í Zagreb þegar heimsmeistaramótið hefst með leik við íslenska landsliðið á fimmtudaginn næsta. Hafsteinn Óli var annar tveggja sem varð að bíta í súra eplið og kveðja hópinn. Áður höfðu tveir verið sendir til síns heima en upphaflega voru 20 í æfingahópnum.
Hafsteinn Óli staðfesti við handbolta.is að hann væri á heimleið.
„Ég er á heimleið en á að vera tilbúinn að fara út ef þörf krefur,“ sagði Hafsteinn Óli sem var skiljanlega vonsvikinn enda hafði hann haldið að 18 leikmenn ættu að vera í Zagreb á vegum landsliðs Grænhöfðaeyja, þ.e. að tveir leikmenn yrðu til taks en 16 leikmönnum má tefla fram í hverjum leik.
The final squad of Cape Verde🇨🇻#handball pic.twitter.com/U2kh63rRmq
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) January 9, 2025
Hafsteinn Óli, sem leikur annars með Gróttu, lék sína fyrstu landsleiki fyrir Grænhöfðaeyjar í byrjun nóvember á æfingamóti í Kúveit.
Verður Hafsteinn Óli með Grænhöfðaeyjum á HM? – nýkominn úr keppnisferð
Eitt fimm landsliða Afríku
Landslið Grænhöfðaeyja er eitt fimm liða frá Afríku sem taka þátt í heimsmeistaramótinu. Liðið vann sér sæti með því að hafna í fjórða sæti á Afríkumótinu sem fram fór í Egyptalandi fyrir ári síðan.
Auk Íslands verður Grænhöfðeyingar með Slóvenum og Kúbumönnum í riðlakeppninni. Þrjú lið fara áfram í milliriðil og er ekki hægt að útiloka að landsliðs Grænhöfðaeyja verði eitt þeirra sem flýtur áfram. Á HM fyrir tveimur árum komst landslið Grænhöfðaeyja upp úr riðlinum með sigri á landsliði Úrúgvæ og mætti m.a. íslenska landsliðinu í milliriðli í Gautaborg.