Skyndilega breyting varð á hjá handknattleiksmanninum Hafsteini Óla Ramos Roca, landsliðsmanni Grænhöfðaeyja og leikmanni Gróttu. Eftir því sem Logi Geirsson fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik segir á X í gærkvöld þá verður Hafsteinn Óli með landsliði Grænhöfðaeyja á HM.
Fyrir stundu þá staðfesti Hafsteinn Óli við handbolta.is að hann verði í HM-hópnum í Zagreb og verður þar af leiðandi hugsanlega með í fyrsta leiknum á HM gegn Íslandi á fimmtudagskvöld.
„Það eru meiðsli í leikmannahópnum og ég verð þar af leiðandi með liðinu í Zagreb,“ sagði Hafsteinn Óli við handbolta.is nú fyrir hádegið en hann kom til Zagreb í gær á sama tíma og aðrir landsliðsmenn landsliðs Grænhöfðaeyja.
Á föstudaginn sagði handbolti.is frá því að Hafsteinn Óli hefði ekki verið valinn í 16-manna keppnishóp Grænhöfðaeyja fyrir HM. Hafsteinn Óli staðfesti það við handbolta.is en sagði jafnframt að hann ætti að vera í viðbragðsstöðu heima á Íslandi ef eitthvað kæmi upp á hjá þeim leikmönnum sem valdir höfðu verið til þátttöku.
Hafsteinn Óli sem á föður frá Grænhöfðaeyjum og íslenska móður hefur æft og leikið með landsliði Grænhöfðaeyja síðustu mánuði.
Verður Hafsteinn Óli með Grænhöfðaeyjum á HM? – nýkominn úr keppnisferð