Hákon Daði Styrmisson átti stórleik og var markahæsti leikmaðurinn í Ischelandhalle í gær þegar Eintracht Hagen vann TV Hüttenberg, 33:29, í 2. deild þýska handknattleiksins. Eyjamaðurinn skoraði 11 mörk, þar af þrjú úr vítaköstum. Hagen er í fjórða sæti deildarinnar en tímabilið í vetur er það besta hjá liðinu á síðari árum í deildinni.
Hákon Daði, sem þessa dagana leitar liðs til að leika með á næsta keppnistímabili, geigaði aðeins á tveimur skotum í leiknum í gær. Hann tók einnig þátt í varnarleiknum og var vikið einu sinni af leikvelli.
Tumi Steinn Rúnarsson skoraði eitt mark fyrir HSC Coburg þegar liðið vann Nordhorn, 34:30, á heimavelli. Coburg er í fimmta sæti deildarinnar eins og sjá má á stöðunni sem birtist neðst í þessari grein. Tumi Steinn, sem líkt og Hákon Daði, hugsar sér til hreyfings eftir tímabilið, átti þrjár stoðsendingar í leiknum við Nordhorn.
Áfram er barningur
Áfram heldur baslið á liði GWD Minden sem Bjarni Ófeigur Valdimarsson og Sveinn Jóhannsson leika með. Minden gerði í gær jafntefli við TuS Vinnhorst sem kom upp úr 3. deild á síðasta vori, 25:25. Minden situr í þriðja neðsta sæti með 14 stig, stigi fyrir ofan Vinnhorst. EHV Aue rekur lestina fimm stigum á eftir Vinnhorst.
Bjarni og Sveinn skoruðu eitt mark hvor fyrir GWD Minden í leiknum í gær. Bjarni átti einnig fjórar stoðsendingar.
Tíu umferðir eru óleiknar í 2. deild.
Staðan: