Færeyski landsliðsmaðurinn í handknattleik, Hákun West av Teigum, var á laugardaginn valinn íþróttamaður ársins í Færeyjum á uppskeruhátið færeyska íþróttasambandsins. Við sama tilefni var ungstirnið Óli Mittún valinn efnilegasti íþróttamaður Færeyja
Hákun er hægri hornamaður sem gert hefur það gott með Skanderborg Aarhus og færeyska landsliðinu. Hann gengur til liðs við Füchse Berlin í sumar og leysir af danska landsliðsmanninn Hans Óttar Lindberg. Hákun varð ennfremur efstur í vali lesenda Handball-Planet á efnilegasta hægri hornamanni Evrópu á síðasta ári.
Óli Mittún, sem er á 18 ára, sló í gegn í evrópskum handknattleik á síðasta ári. Hann var valinn besti leikmaður lokakeppni Evrópumóts 18 ára landsliða sem fram fór í Podgorica í Svartfjallalandi. Einnig var hann markahæsti leikmaður keppninnar.
Óli var einnig áberandi í færeyska U20 ára landsliðinu sem var með á EM í Porto nokkru fyrir EM 18 ára landsliða. Hann gekk til liðs við sænska liðið IF Sävehof fyrir yfirstandandi leiktíð.