Íslendingaliðið Gummersbach tapaði í kvöld fyrir Lübeck-Schwartau á útivelli í þýsku 2. deildinni í handknattleik, 31:29, eftir að hafa verið marki undir að loknum fyrri hálfleik, 15:14. Þetta er fimmta tap Gummersbach í deildinni á leiktíðinni. Þrátt fyrir tapið í kvöld heldur liðið efsta sæti deildarinnar. Það hefur 30 stig að loknum 20 leikjum og er tveimur stigum á undan Nordhorn þegar keppni í deildinni er rétt liðlega hálfnuð.
Í jöfnum og spennandi leik í kvöld skoruðu leikmenn Lübeck-Schwartau tvö síðustu mörkin á lokamínútunni.
Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach og var einu sinni vísað af leikvelli, á síðustu mínútu leiksins. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach. Martin Nagy, sem lék í marki Vals, á síðasta keppnistímabili, stóð í marki Gummersbach í 40 mínútur í kvöld og varði 11 skot, þar af eitt vítakast, 35%.
Hagen, sem er í fjórða sæti, tapaði með tíu mörkum á heimavelli fyrir Ferndorf, 29:19.
EHV Aue, sem Arnar Birkir Hálfdánsson og Sveinbjörn Pétursson leika með, átti að sækja Tusem Essen heim í kvöld. Leiknum var frestað.
Staðan: