- Auglýsing -
Liðsmenn EHV Aue halda enn í vonina um að bjarga liðinu frá falli í þýsku 2. deildinni í handknattleik eftir að þeim tókst að vinna Lübeck-Schwartau á heimavelli í kvöld, 26:23.
Staða liðsins í neðsta sæti er eftir sem áður erfið. Liðið er með 19 stig þegar það á sjö leiki eftir og er stigi á eftir Emsdetten og Dormagen sem eiga inni tvo og þrjá leiki. Þar fyrir ofan eru svo Grosswallstadt og Ferndorf sem einnig eiga að baki færri leiki en EHV Aue. Ferndorf tapaði í kvöld fyrir Eisenach, 35:26.
Íslendingarnar hjá EHV Aue voru ekki ýkja áberandi að þessu sinni. Arnar Birkir Hálfdánsson átti tvæt stoðsendingar auk eins markskots sem missti marks. Sveinbjörn Pétursson stóð í markinu í tæpar 25 mínútur og varði tvö skot, 16%. Færeyingurinn Áki Egilsnes, sem lék um nokkurra ára skeið með KA, skoraði ekki að þessu sinni en átti tvær stoðsendingar líkt og Arnar Birkir.
Forráðamenn EHV Aue leggja allt í sölurnar til þess að liðið geti haldið sæti sínu í deildinni. M.a. var þjálfarinn Kirsten Weber látinn taka pokann sinn um helgina með von um að fríska upp á liðið. Stephan Just hefur tekið við þjálfuninni.
- Auglýsing -