Stjórn danska handknattleikssambandsins samþykkti á fundi sínum fyrir hádegið að halda áfram undirbúningi vegna Evrópumóts kvenna í handknattleik þótt enn skorti samþykki heilbrigðisyfirvalda að Danir verði gestgjafar mótsins.
Stjórnin hittist á neyðarfundi í morgun þar sem farið var yfir stöðuna en aðeins eru 12 dagar þangað til mótið á að hefjast. Til stendur að það fari fram í Herning og Kolding verði þátttökuþjóðir 16.
Dögum saman hefur verið beðið eftir að heilbrigðisyfirvöld gæfu grænt ljós. Formaður danska handknattleikssambandsins, Per Bertelsen, sagði í gær að þolinmæði sín væri að bresta í biðinni eftir græna ljósinu og gaf í skyn að hugsanlega hætti danska handknattleikssambandið við mótahaldið.
Danska íþróttasambandið og Team Danmark hafa lýst yfir fullum stuðningi við handknattleiksambandið og hvatt yfirvöld til þess að samþykkja mótahaldið sem fyrst.
Meðan við bíðum eftir ákvörðun yfirvalda þá höldum við undirbúningi okkar áfram með það að markmiði að halda EM í Danmörku í desember, segir m.a. í fréttatilkynningu danska handknattleikssambandsins sem send var út eftir stjórnarfundinn skömmu fyrir hádegið.
„Leikmenn eru tilbúnir að hefja leik og gangast undir ströng sóttvarnaskilyrði sem öllum eru ljós. Nú bíðum við eftir græna ljósinu svo þjóðin hafi eitthvað til að gleðjast yfir í desember,“ segir ennfremur í fréttatilkynningu danska handknattleikssambandsins sem birt var í hádeginu.