- Auglýsing -
Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar í BSV Sachsen Zwickau halda sæti sínu í 1. deild þýska handknattleiksins eftir að hafa haft betur samanlagt í tveimur umspilsleikjum við Göppingen, 51:48. Zwickau tapaði síðari leiknum sem fram fór í Göppingen í kvöld, 27:26. Fyrri viðureignin fór fram í Zwickau á síðasta miðvikudag.
„Þetta var ekki glæsilegur leikur. Mikið um mistök hjá báðum liðum en úrslitin samanlagt eru frábær,“ sagði Díana Dögg við handbolta.is í kvöld. Hún skoraði þrjú mörk í leiknum, átti tvær stoðsendingar, átti þrjú sköpuð færi, stal boltanum þrisvar og vann tvö vítaköst. Þess utan var Díana Dögg tekin úr umferð síðustu tíu mínútur leiksins þegar leikmenn Göppingen freistuðu þess að snúa leiknum hressilega sér í vil. Allt kom fyrir ekki.
Staðan að loknum fyrri hálfleik var jöfn, 10:10.
Göppingen verður þar með áfram í 2. deild á næsta keppnistímabili en liðið hafnaði í öðru sæti deildarinnar á dögunum.
- Auglýsing -