- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haldið áfram að ryðja brautina, hækka rána í kvennahandbolta

20 ára landslið Íslands í handknattleik kvenna sem hafnaði í 7. sæti á HM sem lauk á sunnudag í Skopje í Norður Makedóníu. Efri röð f.v.: Ethel Gyða Bjarnasen, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, Elísa Elíasdóttir, Sylvía Sigríður Jónsdóttir, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir, Lilja Ágústsdóttir, Anna Karólína Ingadóttir, Embla Steindórsdóttir, Elín Klara Þorkelsdóttir. Fremri röð f.v.: Sonja Lind Sigsteinsdóttir, Inga Dís Jóhannsdóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir, Rakel Oddný Guðmundsdóttir, Brynja Katrín Benediktsdóttir, Tinna Sigurrós Traustadóttir, Katrín Anna Ásmundsdóttir. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -
  • Með skömmum fyrirvara ákvað handbolti.is að bregða undir sig betri fætinum í síðustu viku og fara til Skopje í Norður Makedóníu. Fylgjast þar með endspretti íslenska 20 ára landsliðs kvenna á heimsmeistaramótinu. Væntanlega hefur dvöl handbolta.is í Skopje ekki farið framhjá lesendum. Alltént sá ég að einum þótti orðið nóg um.
  • Eftir að hafa þraukað í nokkra daga steikjandi sterkju hita í Skopje var ég farinn að halda að ég væri óheillakráka. Sigur í þriðja og síðasta leiknum varð til þess að óheillakrákan flaug síðan leið. Allir brostu á ný út að eyrum eins og sólin skæra yfir borg spilavítanna.
  • Eins og komið hefur fram hafnaði íslenska landsliðið í 7.sæti HM, af 32 þátttökuliðum og var m.a. fyrir ofan Þýskaland, Noreg, Spán, Rúmeníu, Svartfjallaland og Suður Kóreu, allt öflugar handboltaþjóðir í kvennaflokki. Íslenska liðið kom í kjölfarið á Svíþjóð og Danmörku sem lentu í sjötta og fjórða sæti.
  • Árangurinn var engin tilviljun. Rökrétt framhald af árangri þessa á HM 18 ára fyrir tveimur árum þegar áttunda sæti varð niðurstaðan. Þá eins og nú var íslenska liðið hársbreidd frá sæti í undanúrslitum. Nú tapaðist leikurinn í átta lið úrslitum fyrir Evrópumeisturum Ungverja eftir framlengingu. Fyrir tveimur árum tapaði liðið naumlega fyrir Hollendingum.
  • Tíu af 16 leikmönnum sem voru í Skopje á liðnum dögum voru í liðinu sem lék í B-keppni Evrópumótsins sumarið 2021 og tapaði fyrir Norður Makedóníu í úrslitaleik mótsins. Álíka margar voru í liðinu sem í byrjun vetrar tóku þátt í forkeppni HM og tapaði m.a. fyrir Serbíu. Þremur árum síðar eru landslið Serbíu og Norður Makedóníu talsvert á eftir íslenska liðinu.
  • Þrettán af 16 leikmönnum sem voru í Skopje nú tóku þátt í HM 18 ára landsliða fyrir tveimur árum.
  • Ljóst má vera að fram er kominn fjölmennari og sterkari hópur handknattleikskvenna en áður hefur verið. Metnaðarfullar konur sem vilja leggja sig fram og gefa sig í allar í íþróttina með því að huga að sem flestum þáttum sem skipta máli þegar afreksmaður verður til.
  • Með þessum hóp síðustu árin hafa verið bráðsnjallir þjálfarar sem hafa kunnað að koma boðskap sínum og framfæri og fá stúlkurnar til þess að taka við honum og trúa á. Einnig vaskur hópur aðstoðarfólks að ógleymdum samstíga hópi foreldra og forráðamanna.
  • Metnaðarfullir þjálfarar sem brenna fyrir árangur, skemmtilega ólíkar týpur. Þeim hefur lánast í samvinnu við leikmenn að búa til afar sterka liðsheild þar sem hver þekkir sitt hlutverk.
  • Til hefur orðið öflugur hópur sem getur á næsta árum lyft kvennalandsliðinu á hærri stall en áður hefur þekkst í íslenskum handknattleik verði áfram rétt á spilum haldið. Ef vel tekst til getur orðið til landslið sem getur orðið í hópi þeirra allra sterkustu í heiminum. Framundan eru ár þar sem á góðum stundum verður farið að tala um stelpurnar okkar eins og gert hefur verið um strákana okkar á gleðistundum síðustu áratugi.
  • Nokkrar úr hópnum hafa þegar leikið með A-landsliðinu. Fleiri knýja á dyrnar. Eftir því má hinsvegar ekki bíða. Skapa þarf þessum hópi vettvang á næstu einum til tveimur árum til að ekki myndist tómarúm.
  • Margt gott er að gerast í íslenskum kvennahandknattleik. Svo virðist sem vakning hafi átti sér stað á síðustu árum með kraftmiklu starfi margra félaga og einnig innan HSÍ þótt sumir haldi öðru fram eða telja leiðina ekki vera rétta.
  • Mál er komið, og það e.t.v. fyrir löngu, að setja punkt aftan við þennan langhund. Hornbjarg fer brátt að koma inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli eftir flug frá Frakkafurðu. Ef einhver úr Skopjehópnum er enn að lesa þá þakkar gamli kallinn fyrir móttökurnar og samveruna. Haldið áfram að ryðja brautina, hækka rána í kvennahandbolta á Íslandi.

Ívar Benediktsson, [email protected].

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -